150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að gleðja hv. þingmann með því að kirkjan fær hærri fjárframlög en Ríkisútvarpið. (Gripið fram í: Nei.) Jú, það er þannig að samkvæmt viðbótarsamkomulaginu summast sú upphæð í um 3,5 milljarða eða svo ef maður tekur allt til. Til viðbótar fær þjóðkirkjan um 80% af sóknargjöldunum, sem eru um 2 milljarðar í viðbót, og þá er maður kominn ágætlega yfir framlagið til RÚV. Ég velti því dálítið fyrir mér þegar við erum komin á þann stað í samanburði þjóðkirkjunnar við aðra söfnuði þar sem þjóðkirkjan tekur 80% af sóknargjöldunum og hin 20% fara síðan til allra hinna safnaðanna og það er það sem þeir þurfa að reka sig á ásamt frjálsum framlögum náttúrlega, eins og kirkjan getur líka gert. Inni í sóknargjöldunum eru í raun laun þeirra presta sem þar starfa en sóknargjöldin eru ekki uppfærð samkvæmt launavísitölunni en samningurinn, viðbótarsamkomulagið sem er gert, sem er í rauninni launasamningur kirkjunnar, er uppfærður í samræmi við launavísitölu. Sóknargjöldin eru síðan bara einhver bónus sem hún getur notað í eitthvað allt annað og meira og það er áhugaverður vinkill.

Hv. þingmaður nefndi kostnaðinn við að styrkja þjóðkirkjuna og að það væri erfitt að komast að því hver kostnaðurinn væri en við höfum einfaldlega ekki hugmynd um það. Það er ekki einu sinni reynt að giska á hvar og hvernig og hvers vegna kostnaðurinn er þessi upphæð. Við erum með upphæð, það er búið að koma með hana, en hvernig? Af hverju er það þessi upphæð en ekki einhver önnur? Þá velti ég fyrir mér hvort við eigum bara að trúa því að það sé rétt upphæð, eða ekki, því að við fáum ekkert að vita hvernig þetta skiptist á milli uppgjörs eignatilfærslunnar, þjónustukaupanna eða skyldunnar vegna stjórnarskrárinnar eða neitt því um líkt.