150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á þessum uppfærslum og tengingum sem þingmaðurinn nefndi hér og ég hugsa að það væri til bóta ef þetta væri samræmanlegt með einhverjum hætti. Ég tek undir að allt svona eigi að vera sem mest upp uppi á borðum, hvernig þessi útgjöld eru og kostnaður, og ég vil ekki trúa því að það sé vísvitandi verið að reyna að fela þetta eða eitthvað slíkt. Ég tek undir með þingmanninum að það væri ágætt ef hægt væri að aðgreina þessa hluti betur og sýna fram á þetta. Ég tek fram að ég hef ekki hugmynd um það en það kæmi mér á óvart ef allt það sem er verið að greiða fyrir eða það sem þjóðkirkjan sinnir, ef það er flokkað niður, ég er ekki viss um að það standi undir sér miðað við það fjármagn sem á að renna til þess. Auðvitað greiðum við sjálf fyrir ákveðna þjónustu. Þegar við skírum eða giftum okkur eða eitthvað slíkt borgum við prestunum og kirkjunni, við útfarir og annað. Það er vitanlega aukakostnaður en hann er fyrir þær athafnir sem þarna eru framkvæmdar. Það má eflaust velta því fyrir sér, ef hv. þingmaður er að fara út í það, hvort þarna sé tvöfaldur kostnaður á ferðinni. Ég geri mér ekki grein fyrir því en einhvern veginn held ég að þjónustan sé ekki ofborguð. Ég hef ekkert fyrir mér frekar en hv. þingmaður í þessari skiptingu.