150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

ræktun iðnaðarhamps.

[10:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef, líkt og hv. þingmaður, bæði fylgst með þessari senu í fjölmiðlum og sömuleiðis verið í samskiptum við það fólk sem þarna á í hlut. Ég hef fundað með allnokkrum aðilum úr þessum geira. Ég hef sest niður með öllum sem hafa óskað eftir fundi og er alveg jafn jákvæð og ég var þegar við hv. þingmaður ræddum þessi mál fyrir skömmu. Ég fól ráðuneytisstjóra mínum að tengja okkar ráðuneyti við önnur ráðuneyti af því að þetta er málaflokkur sem teygir sig inn í a.m.k. fjögur ráðuneyti. Málaflokkar líða stundum fyrir það þegar þeir eru á of mörgum stöðum. Ég hef sömuleiðis fengið þær upplýsingar úr heilbrigðisráðuneytinu að þar sé vilji til að setja þessa vinnu af stað og ég hef tekið vel í það og í raun tekið það að mér að taka þetta mál bara í fangið. Af því sem ég hef kynnt mér sýnist mér rótin að vandanum liggja í löggjöf sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra. Við verðum einfaldlega að gefa okkur svolitla stund til að kortleggja það og fikra okkur áfram í því.

Mín skoðun er alveg skýr, í raun má alveg segja að það sé ótrúlega sérstakt að borgarinn njóti ekki vafans þegar hann hefur fengið leyfi frá stjórnvaldi og að þegar sá borgari sjálfur bendir á undarlega stöðu í löggjöfinni skuli einmitt sá borgari fá annað stjórnvald til sín sem segir: Heyrðu, þetta er ekki eins og það á að vera. Í því tilviki finnst mér að borgarinn eigi almennt að njóta vafans og að líta eigi til meðalhófs í því. Minn vilji er alveg skýr, ég sé ótrúlega mikil tækifæri í ræktun og framleiðslu og öllu því sem að þessu snýr og ég mun gera það sem ég get til að koma þessum málum í réttan farveg.