150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

upplýsingar úr Samherjaskjölunum.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Málið er alvarlegt, um það erum við öll sammála. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur talað mjög skýrt um að héraðssaksóknari muni fá fullt svigrúm til að sinna þessari rannsókn þannig að hún verði ítarleg og öllum steinum snúið við. Það hefur komið skýrt fram, ekki einu sinni heldur mun oftar, bæði í þessum sal og í annarri opinberri umræðu.

Ég ber fullt traust til héraðssaksóknara til að fara með rannsókn þessa máls. Af því að hv. þingmaður spyr mig svara ég: Nei, ég hef ekki lesið þessi 60.000 skjöl. Ég treysti því bara (Gripið fram í.) að réttar stofnanir muni sinna því hlutverki sem þeim er ætlað.