150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Megintilgangur lagasetningar um opinber fjármál var að skapa meiri festu í stjórn fjármála ríkissjóðs, að rammar væru skýrir, unnið væri eftir skýrum markmiðum, auðvitað væru skýrar heimildir fyrir þeim útgjöldum sem stofnað væri til og að það væri meiri agi og fyrirsjáanleiki í því hvernig ríkið starfaði. Þetta fól í sér algjöra grundvallarbreytingu frá þeim viðmiðum sem voru t.d. við stýringu fjármála ríkissjóðs þegar kirkjujarðasamkomulagið frá 1997/1998 var gert. Þeirri endurskoðun sem þá var opnað á eftir 15 ár er algjörlega sóað að því marki að ekki er gerð minnsta tilraun til að laga að lágmarki þetta samkomulag að lögum um opinber fjármál. Við skulum bara horfast í augu við það að við erum í einhverju leikriti um að við séum enn þá að greiða fyrir virði einhverra jarða sem ekkert verðmat liggur fyrir á eða hvort raunverulegt virði þeirra sé uppgert eða ekki. Þess vegna hefði verið metnaðarfyllra af hálfu framkvæmdarvaldsins fyrir það fyrsta að gera það kirkjujarðasamkomulag upp og gera einfaldlega nýjan samning við þjóðkirkjuna um þá þjónustu sem óskað væri eftir að þjóðkirkjan veitti sem endurspeglaði þá sérstaka stöðu þjóðkirkjunnar. Það er ríkur vilji meiri hluta þjóðarinnar að hér sé enn hin lúterska kirkja stjórnarskrárbundin þjóðkirkja landsins, að hún hafi sérstaka stöðu og sérstakan stuðning sem slík. Það er ekkert við það að athuga. Það á bara að vinna eftir þeim lögum sem við höfum sjálf sett okkur um það hvernig við háttum stjórn opinberra fjármála og að samningur sem þessi sé ekki ótímabundinn, (Forseti hringir.) heldur skýr um hvaða kröfur eru gerðar til mótaðila í honum. Það er sorglegt að sjá þau grundvallarviðmið algjörlega hunsuð.