150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það fer að styttast í annan endann á þessari 1. umr., en áður en henni lýkur vildi ég nota þetta tækifæri, í annarri ræðu minni, til að hnykkja á nokkrum atriðum sem voru alltumlykjandi hér í gær og koma jafnframt inn á það atriði sem helst þarf að hafa í huga í nefndarvinnunni hvað þessa breytingu varðar.

Það sem ég vildi fyrst koma inn á eru þessi alltumlykjandi samskipti ríkis og sveitarfélaga þar sem umræða gærdagsins snerist að miklu leyti um það hvort árlegar greiðslur á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins væru úr hófi eða ekki, sanngjarnar eða alls ekki. Eftir umræðu gærdagsins held ég að það hafi blasað við flestum sem þekkja málið vel að árlegar greiðslur ríkissjóðs til handa kirkjunni, sem ég kýs að líta á sem vaxtagreiðslu á móti höfuðstól sem aldrei hefur verið borgað neitt af, sem er í formi jarðaafhendingar kirkjunnar, eru mjög hóflegar ef við horfum á raunverulegt undirliggjandi verðmæti þess sem upphaflega var afhent. Menn mega heldur ekki gleyma því sem snýr að sögunni, þ.e. að hluti af því að kirkjujarðasamkomulagið var gert 1997 var sú staðreynd að ríkissjóður hafði valsað um þessar eigur kirkjunnar eins og hann ætti þær áratugina á undan. Það má eiginlega segja að staðan hafi byrjað að súrna hvað þessar jarðeignir kirkjunnar varðar upp úr seinna stríði. Dómsmálaráðherrar, og væntanlega er líka rétt að nefna fjármálaráðherra, virtust fram að kirkjujarðasamkomulaginu líta á þetta sem eign ríkisins. Það eru fjölmörg dæmi um að spildur hafi verið seldar úr kirkjujörðum. Síðan getum við hugsað okkur hvers virði til að mynda 90% alls lands undir Akranesbæ er í dag; allt land sem Borgarnes stendur á og svo koll af kolli hringinn um landið. Býsna víða stendur þéttbýli á gömlum kirkjujörðum. Garðabær að meginhluta til, held ég að óhætt sé að segja. Einnig þarf að skoða viðskipti með þessar jarðir og sölu á þeim sem ég ætla kannski að koma betur inn á í ræðu minni í 2. umr., eftir að málið kemur aftur úr nefnd.

Þetta er saga sem verður að halda til haga í þessu samhengi þegar hver þingmaðurinn á fætur öðrum, og hv. þingmenn Pírata af mestri ákefð, reynir að halda því fram að þessi saga skipti engu máli, að þær hafi bara fallið af himnum ofan, greiðslurnar til kirkjunnar frá ríkinu og allt gleymt sem á undan er gengið. Í þessu samhengi reyna menn að tengja hlutina þannig saman að það sé brot á jafnræði á milli trúfélaga, og lífsskoðunarfélaga eftir atvikum, hvernig samskipti ríkis og kirkju eru. Það er auðvitað algerlega fráleitt. Eins og ég sagði í ræðu minni í gær veit ég ekki til þess, svo að dæmi séu tekin, að annaðhvort Siðmennt eða Vantrú hafi nokkurn tímann afhent ríkinu nokkurn skapaðan hlut. Eðlilega er þá ekkert gjald reitt á móti. Við verðum að bera gæfu til að tala um þessa hluti eins og þeir eru en ekki í einhverjum ímynduðum veruleika sem virðist fyrst og fremst byggjast á því að gera sem minnst úr sögunni og því hvernig þessi mál raunverulega þróuðust. Það er uppleggið hjá þeim sem vilja með öllum tiltækum ráðum grafa undan hinni íslensku þjóðkirkju.

Ég held, af því að umræðan í gær snerist mikið um hver höfuðstóllinn af framlagi kirkjunnar var, að ef til þess kemur að fullur aðskilnaður verði verði menn að vera undirbúnir undir það að fara í þá vinnu að verðmeta allar þær jarðir og öll þau lönd sem kirkjan afhenti þannig að fullt gjald komi fyrir.