150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:07]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar í minni fyrstu ræðu að setja málið aðeins í tímalegt samhengi, þ.e. hvers vegna við erum komin hingað í þessari umræðu, og sýna þannig fram á hversu fáránlegt það er að eitthvað liggi á með afgreiðslu málsins og hversu súrrealískt það er að ekki sé gefinn tími til að ræða málið eins og þyrfti að gera. Sú staðreynd hversu seint málið kemur fram sýnir enn betur fram á hve tímalínan í málinu í heild er raunverulega bjöguð.

Í því ljósi langar mig að vitna aðeins í Íslandskafla lokaverkefnis Orra Freys Rúnarssonar til BA-gráðu í stjórnmálafræði, með leyfi forseta:

„Fyrstu almennu lögin um íslensku Þjóðkirkjuna, lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, voru sett í kjölfar vinnu undirbúningsnefndar sem skipuð hafði verið af kirkjuráði árið 1993. Nefndinni hafði verið fengið það verk að semja drög að frumvarpi til fyrstu almennu laga um Þjóðkirkjuna, réttarstöðu hennar, starfsmanna og stjórnskipulag. Nefndinni var einnig falið að fjalla um megindrætti starfsemi kirkjunnar, yfirstjórnar jafnt og safnaða. Nefndin tók talsvert mið af þrískiptingu ríkisvaldsins við gerð frumvarpsins, en innan kirkjunnar var komið á löggjafarvaldi (Kirkjuþing), framkvæmdarvaldi (Kirkjuráð og önnur kirkjuleg stjórnvöld, til að nefna biskup Íslands) og dómsvald (úrskurðar- og áfrýjunarnefnd). Rétt er að taka fram að almennir dómstólar hafa að sjálfsögðu dómsögu í málefnum tengdum Þjóðkirkjunni þegar landslög eru brotin. Úrskurðar- og áfrýjunarnefndin tekur hins vegar á meintum brotum kirkjulaga og ágreiningsmála innan kirkjunnar, mál sem ekki heyra undir almenna dómstóla. Biskup Íslands hefur yfirumsjón með innri málefnum Þjóðkirkjunnar og beitir sér fyrir ágreiningsefnum. Hann getur jafnframt gripið til þeirra úrræða er lög og kirkjuhefð leyfa.“

Og áfram í kafla 6.1 um kristnitöku:

„Saga kristinnar trúar á Íslandi nær næstum því aftur til landnáms. Talið er að Ísland hafi verið numið um árið 870 og kristnitakan fór fram árið 1000. Flestir landnámsmenn voru norskir þótt einhverjir hafi verið frá Skotlandi og Írlandi. Fátt er um heimildir um trúariðkun landnámsmanna, en vitað er að Noregur var alheiðið ríki. Líklegast voru goð þó ofarlega í huga landnámsmanna, enda helguðu sumir þeirra landnámi sínu goðum og reistu hof. Við stofnun Alþingis, árið 930, var ákveðið að 36 goðorð skyldu vera í landinu. Þær heimildir sem er að finna um heiðin átrúnað á Íslandi á landnámsöld gefa til kynna að Þór hafi verið mest dýrkaður hér á landi, en Freyr, Njörður, Óðinn og Freyja komu einnig við sögu.“

Og áfram í kafla 6.2 um trúboð á Íslandi:

„Ólafur Tryggvason varð konungur Noregs árið 995. Hann kynntist kristinni trú snemma af manni sem bar heitið Þangbrandur og fór til Írlands til þess að skírast í kristna trú. Eftir að Ólafur komst til valda í Noregi varð það honum metnaðarmál að kristna konungsveldið og í þeim tilgangi sendi hann trúboða til Íslands. Fyrsta för trúboða til Íslands bar þó ekki mikinn árangur, sem kom konungi bæði á óvart og reitti hann til reiði. Greip hann því til þess ráðs að senda annað föruneyti af stað með þeim Hjalta Skeggjasyni og Gissuri hvíta. Markmið þeirra var að fá Alþingi til þess að taka upp kristna trú á Íslandi árið 1000. Þegar þeir komu að landi, hófust þeir handa við að safna saman mönnum sem þegar höfðu tekið upp kristna trú og héldu til Þingvalla í þeirri von að ná þangað áður en þing hæfist. Á Þingvöllum mætti þeim hópur heiðinna, en þó ekki hafi komið til átaka hópanna á milli upphófst nokkuð karp á þingi sem endaði með því að hóparnir tveir sögðu sig úr lögum hvor við annan.

Kristni hópurinn bað einn af sínum leiðtogum, Hall Þorsteinsson, um að semja ný lög fyrir hópinn en Hallur baðst undan því og gerði samning við Þorgeir Ljósvetningagoða um að semja lög fyrir alla landsmenn, kristna sem heiðna. Þorgeir brást við á nokkuð óvæntan hátt, lagðist undir feld og dvaldist þar meðan að hann hugsaði mál sitt. Eftir að Þorgeir hafði íhugað málið kallaði hann menn til Lögbergs og flutti þar ræðu. Í ræðunni kom fram að ekki væri vænlegt að hafa tvenn lög í landinu og því væri mikilvægt að aðeins ein trú og ein lög ríktu á Íslandi. Kvað Þorgeir svo upp ákvörðun sína og sagði þingheimi að Ísland skyldi taka upp kristni og menn ættu að skírast. Til þess að koma til móts við þá heiðnu var þó enn heimilt að stunda barnaútburð og hrossakjötsát auk þess sem menn máttu áfram blóta á laun. Með þessari ákvörðun Þorgeirs Ljósvetningagoða hófst rúmlega 1000 ára saga kristinnar trúar á Íslandi, en kristnin hefur haldist sem ríkistrú allt til dagsins í dag.“

Í kafla 6.3 um fyrstu árin undir kristni segir:

„Eftir fráfall Ólafs Tryggvasonar árið 1000 hurfu Norðmenn að mörgu leyti aftur til heiðni. Hér á landi varð þróunin þó önnur og segja má að kristnin hafi eflst á Íslandi eftir því sem árin liðu. Kristin lífsviðhorf hófu fljótlega að móta fólk og hafa áhrif á lög og reglur samfélagsins. Fljótlega áttu þær undanþágur sem Þorgeir Ljósvetningagoði hafði komið á ekki lengur við og bannað var að bera út börn. Skyldugt var að skíra nýfædd börn og fyrirmæli voru gefin um að halda hvíldardaginn heilagan og um greftrun í kirkjugörðum. Þungar refsingar lágu við brotum á þessum kristnu gildum. Þrátt fyrir að þjóðin væri kristin háði það þó kristinni trú hér á landi að engin kirkjustofn var fyrir hendi. Skipulagt helgihald þekktist ekki, prestar voru fáir, lítil fræðsla um trúna og síðast en ekki síst sárafáar kirkjur. Á þessu átti þó eftir að verða breyting. Tímabil þetta hefur oft verið nefnt tímabil goðakirkjunnar. Goðarnir sem setið höfðu á Alþingi héldu sætum sínum og fóru enn með stjórn landsins. Með þeim ríkti sérstakt samband við kirkjuna. Goðarnir sýndu kristninni mikinn sóma og reistu kirkjur á jörðum sínum og auðguðust sumir vel á því. Engin togstreita ríkti milli hins veraldlega valds og hins kirkjulega valds, heldur var þvert á móti mikil samvinna þar á milli.

Kristin trú hafði því strax gríðarleg áhrif á þjóðlíf og samfélag Íslendinga. Á þessum tíma var vart um eiginlegt ríkisvald að ræða, en goðarnir fóru þó með stjórn landsins og tóku ákvarðanir sem snertu alla íbúa Íslands. Goðarnir tóku að sér að vernda kristna kirkju eftir kristnitökuna árið 1000 og því má halda fram að sterk tengsl hafi myndast milli ríkis og kirkju strax í upphafi. Tengsl sem hafa haldist allt til dagsins í dag, þrátt fyrir að hafa tekið gríðarlegum breytingum.“

Í kafla 6.4 um eignarhald á kirkjum segir:

„Á næstu öldum eftir kristnitökuna ríkti ákveðin togstreita á milli kirkjunnar og konungsins. Erfitt reyndist að skilgreina hvar mörkin milli hins andlega og hins veraldlega valds lágu og til átaka gat komið þegar landslög og kirkjulög áttu ekki samleið. Þá var deilt um eignarhald á kirkjum og eignum þeirra.“

Herra forseti. Hér lýkur tilvitnun minni að sinni. Ástæðan fyrir því að ég vel að vitna í lokaverkefni Orra Freys Rúnarssonar í stjórnmálafræði, í Íslandskafla þess verkefnis, er ekki að drepa málinu á dreif heldur til að gera það skýrt, eins og ég vék að í upphafi máls míns, hve sagan er löng, sagan af samskiptum ríkis og kirkju. Við erum með ártalið 870. Nú erum við rétt fyrir jól árið 2019 að upplifa það að svo mikið liggur á að hér skipta mínútur máli, í sögu sem spannar hundruð og þúsundir ára.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna örstutt áfram í ritgerðina, þar sem frá var horfið:

„Samkvæmt réttarhugmyndum germanskra þjóða gat kirkja ekki verið sjálfseignarstofnun. Sá sem stofnaði og byggði kirkju á jörð sinni var þannig eigandi kirkjunnar. Jarðeigandinn var skyldugur til þess að leggja kirkjunni fé og tryggja almenningsaðgang að messum. Umbun jarðeigandans var skattfrelsi kirkjunnar. Upp úr aldamótum 1200 breyttist þetta viðhorf. Bændur fóru í auknum mæli að viðurkenna að kirkjur væru ekki eignir mannanna heldur eignir guðs, en það fór eftir stærð kirkjunnar og eignum sem henni fylgdu hvort hún væri undir sérstakri vernd kirkjubónda eða væri sjálfstæð stofnun með réttindi og skyldur við söfnuð sinn.“

Við fáum þarna fleiri ártöl, herra forseti, og við sem hér stöndum þekkjum kannski best síðasta hluta sögunnar, þ.e. síðustu ár og áratugi. Staðreyndin er sú að mál á þessu sviði eru í eðli sínu þannig að þau taka tíma. Mér er til efs að þeir menn sem ég hef lesið upp, Þorgeir Ljósvetningagoði og aðrir, myndu skilja það í dag þegar við ræðum þessi mikilvægu mál hvers vegna við erum að flýta okkur svona.

Mig langar hins vegar að geta þess, þó að ég sé ekki hrifinn af því og telji það ámælisvert hversu seint málið er komið fram og telji það jafnframt ámælisvert að okkur skuli ekki vera veittur sá tími sem eðlilegt er að svona mál fái í þinglegri meðferð, að ég held að málið sé í eðli sínu gott. Ég er hlynntur því í megindráttum, enda málið í sjálfu sér í megindráttum kannski ekki stórlega flókið. En það krefst samt eðlilegrar þinglegrar meðferðar, að það komi inn í þingið á eðlilegum tíma með eðlilegum fyrirvörum. Þrátt fyrir að mér lítist vel á málið og styðji það þykja mér vinnubrögðin jaðra við dónaskap, liggur mér við að segja. Endalaust er verið að tala um að bæta þurfi vinnubrögðin á hinu háa Alþingi en það gerist ekki. Þetta heldur áfram, þetta mallar eins, ár eftir ár. Mál koma alltaf inn á síðustu stundu og það er í eðli sínu óásættanlegt.

Eins og ég sagði, herra forseti, líst mér ágætlega á málið og ég reikna með að ég styðji það. En enn og aftur kalla ég eftir eðlilegri þinglegri meðferð. Ég kalla eftir betri vinnubrögðum. Ég kalla eftir betri tímasetningu og ég held að flestir þeir sem deila sæti með mér í þessum þingsal hljóti að taka undir það að við viljum komast út úr því umhverfi að vera alltaf í einhverjum hamagangi á lokasprettinum. Ég læt þetta duga að sinni, herra forseti, en segi um leið að mér líst ágætlega á málið.