150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég strax taka fram að varðandi þessi Indlandsmál er ég meira ren en hv. þm. Þorgrímur Sigmundsson sem var hér í ræðustól. Við ræðum hér tiltölulega einfalt mál í sjálfu sér. Inn í það hefur vitanlega tvinnast önnur umræða um kirkjunnar málefni sem er ekki skrýtið. Þetta er mál sem er fyrst og fremst til að greiða fyrir þeim breytingum sem hafa orðið á samningum kirkjunnar og ríkisins undanfarin ár. Til grundvallar liggur samkomulag og yfirlýsing frá því í september sl. Verið er að taka fyrsta skrefið í að fullgilda það, ef ég skil þetta rétt, með þessu frumvarpi hér. Hér er verið að breyta starfsheitum og færa meiri ábyrgð á störfum og umsýslu þeirra til kirkjunnar en verið hefur. Það er verið að taka út orðin embættismenn, prestsembætti og þess háttar og koma inn með ný orð sem lýsa jafnvel betur þeirri þjónustu sem kirkjan innir af hendi. Hér er talað um prestsþjónustu í stað prestsembætta o.s.frv. Jafnframt er talað um það hver ræður í störf og ágæt grein er gerð fyrir því í frumvarpinu.

Í greinargerðinni kemur fram tilurð þessa frumvarps, sagan er rakin ágætlega varðandi þann viðbótarsamning sem gerður var í haust og á sér rætur í eldri samningum frá 1997/1998. Ef þetta verður samþykkt fellur reyndar út samningurinn frá 1998, ef ég skil málið rétt. Markmið þessa viðbótarsamnings sem er grunnurinn að frumvarpinu er að einfalda framkvæmd fjárhagslegs stuðnings ríkisins við þjóðkirkjuna. Þar með er ríkið í rauninni að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum og eins samkvæmt stjórnarskrá þar sem kemur fram í 62. gr. að hér skuli vera þjóðkirkja, hin evangelíska lúterska kirkja, og að ríkið skuli styðja hana og vernda, eins og það er orðað. Eflaust má velta fyrir sér hvað þetta nákvæmlega þýði. Hins vegar er ljóst af þeim samkomulögum sem gerð hafa verið að menn líta svo á að það eigi að tryggja stöðu þjóðkirkjunnar með þeim hætti að hún geti starfað og sinnt þeim verkefnum sem henni er ætlað að sinna.

Eins og ég sagði er frumvarpið ekkert flókið og ekki margar greinar. Á bls. 5 í frumvarpinu eru talin ágætlega upp meginefni þess og það samráð sem hefur verið haft. Samráðið hefur, kannski eðlis síns vegna, fyrst og fremst verið við þjóðkirkjuna þar sem verið er að fullkomna eða ganga frá því samkomulagi sem gert hefur verið. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt framhald af því öllu saman.

Jafnframt hefur komið fram í umræðunni, ekki síst af hálfu ráðherra, að þetta sé eitt skref af mörgum sem þurfi að taka til að fylgja — ég vona að ég sé ekki að leggja ráðherra orð í munn — þeirri þróun sem þurfi að eiga sér stað í samskiptum ríkis og kirkju. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því. Ráðherra hefur heldur ekki dregið dul á það að ráðherrann telur aðskilnaðinn þurfa að verða meiri, skýrari og algjöran, ef ég hef skilið orð hennar rétt. Við erum ekki sammála um að fara þá leið og efa ég hreinlega að það sé mjög víðtækur stuðningur við hana en það mun koma í ljós þegar þar að kemur. Mál þetta er eitt af þeim málum sem allir hafa skoðanir á, sem er eðlilegt og sjálfsagt.