150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það hefur spunnist allmikil umræða um þetta mál sem er út af fyrir sig skiljanlegt. Þetta er mjög þýðingarmikið mál, mikil tímamót í samskiptum ríkis og kirkju. Án þess að ég hafi uppi neina gagnrýni á málflutning einstakra manna, fjarri því, finnst mér að sumu leyti umræðan hafa beinst í aðrar áttir en heppilegast væri. Það hefur t.d. verið gert mjög mikið úr lögum um opinber fjármál. Menn hafa nú umgengist þau með ýmsum hætti frá því að þau voru sett og gera fram á þennan dag. Að minni hyggju hittir það ekki alveg nákvæmlega beint í mark að ræða samskipti ríkis og kirkju sem byggjast á aldagamalli sögu út frá lögum sem eiga sér örfárra ára sögu og framkvæmdin á þeim er að einhverju leyti enn þá í mótun í mjög þýðingarmiklum efnum.

Eins og öllum ætti að vera fullkunnugt, herra forseti, stóð jarðnæði kirkjunnar um aldir undir þeirri þjónustu sem hún veitti. Það á við hvort sem er um hina almennu prestsþjónustu, þjónustu við fátæka og allslausa og þá þjónustu sem veitt var með skólahaldi í Skálholti og á Hólum um aldir. Það voru kirkjujarðirnar, jarðnæði kirkjunnar, sem stóðu undir öllu þessu. Við erum að tala um það sem heitir á nútímamáli skólakerfi og velferðarkerfi. Það er jarðnæði kirkjunnar sem öldum saman ber uppi þessa starfsemi í landinu.

Eignamyndun hófst snemma og það er rakið og þekkt að á þjóðveldisöld lögðu höfðingjar, eignamenn og aðrir velmegandi menn, verulegar eignir til kirkjunnar svo að hún hefði starfsgrundvöll og burði til þjónustu. Þegar kirkjuvaldið eflist á 13. öld, eins og menn munu kannast við, kemur fram krafa um forræði kirkjunnar. Af þessu spunnust mikil átök milli kirkju og höfðingja sem lauk með sáttargjörð á Ögvaldsnesi í Noregi árið 1297 fyrir milligöngu Noregskonungs. Í kjölfarið efldist kirkjuvald mjög. Það er alveg nauðsynlegt, herra forseti, að menn hafi þessa löngu sögu fyrir sér. Það er ástæða fyrir því að ég er að fjalla um hlutina eins og þeir eru eftir landnám og á þjóðveldisöld, jafnvel eftir að henni lýkur. Síðan náttúrlega eru nær okkur í tíma mjög stórir áfangar. Það er afhending kirkjujarðanna 1907, það er kirkjujarðasamkomulagið 1997 og svo núna þessi mikilvægi áfangi sem er verið að vinna að. Það er kannski rétt að nefna að þessum kirkjueignum var gjarnan skipt í fjóra meginflokka. Það eru kirkjujarðir sem voru eignir einstakra kirkna og voru afgjöld af þeim notuð til að kosta laun sóknarpresta. Síðan eru það stólsjarðirnar sem voru eign biskupsstólanna í Skálholti og á Hólum og stóðu þær undir starfsemi biskupsembættanna, skólahaldi og fleiru sem varðaði þessa merku staði. Þá voru það kristfjárjarðir, jarðir gefnar Jesú Kristi til uppihalds fátækum. Loks voru það eignir klaustranna. Menn þekkja það auðvitað að við siðbótina hvarf þetta jarðnæði allt saman meira og minna undir konung. Hann tók undir sig eignir klaustranna og eftir niðurlagningu biskupsdæmanna og sameiningu í eitt stifti undir stjórn biskups Íslands í Reykjavík um aldamótin 1800 hurfu stólsjarðirnar í ríkishirslur Danakonungs.

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að hafa þessa sögu fyrir sér og fjalla um hana þegar er verið að ræða þetta þýðingarmikla mál sem við fjöllum um núna. Þetta mál á sér langa sögu, langan og djúpan bakgrunn með þjóðinni.