150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem steig hér síðastur úr pontu hefur lagt mikla hugsun í þetta viðfangsefni og ég velti fyrir mér kannski tveimur atriðum sem ég vildi gjarnan inna hann eftir og það er annars vegar þetta: Ég tek eftir því að í máli sínu leggur hann mikla áherslu á verðmat á þessum eignum og hvenær líta megi svo á að það sé komið hæfilegt endurgjald fyrir þær eignir sem fluttust frá kirkjunni til ríkisins í tveimur áföngum, 1907 og 1997. Ég vil í þessu sambandi spyrja hv. þingmann hvað hann leggur upp úr því að ekki bara fjalla um efnið á forsendum reikningshalds, bókhalds, verðmats og verkefna þar sem eru kallaðir til sérfræðingar í reikningshaldi eða endurskoðun, bókhaldi og verðmati eigna og öðru slíku, heldur hvaða augum hv. þingmaður lítur á þýðingu þeirrar löngu sögu sem þarna liggur að baki og ég hafði bara tíma til að rétt tæpa á í þeim tveimur ræðum sem ég hef haldið um þetta mál við 1. umr. Við höfum fengið 15 mínútur í fyrri ræðu og fimm mínútur í seinni ræðu. Ég hef leitast við að leggja áherslu á ekki síst hinn sögulega þátt og vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvaða vægi hann hefur í hans huga þegar hann er að fjalla um þetta. Ég lýsi nú yfir ánægju með það að ég heyrði ekki betur en hann hefði uppi a.m.k. einhvers konar áform um að geta jafnvel stutt þetta frumvarp og ég vona að hann geri það og það verði honum til blessunar.