150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hef lagt áherslu á bókhaldslega þáttinn eða verðmatsþáttinn og kannski ekki síst það að við vitum hreinlega um hvaða jarðir er verið að tala vegna þess að mér finnst það eiginlega skipta mestu máli í samhengi kirkjujarðasamkomulagsins þegar við ræðum það hér á þingi. Auðvitað býr mikilvægur menningarlegur þáttur þarna að baki og mér fannst mjög gaman að hlusta á ræðu hv. þingmanns áðan þar sem var farið vel yfir söguna, sögu kirkjufyrirkomulags og kristinnar trúar á Íslandi. Mér finnst það í rauninni mikilvægt en mér finnst það kannski ekki eiga endilega heima í þessari umræðu þar sem við erum að tala um samkomulag milli annars vegar trúfélags og hins vegar ríkisins sem þarf að greiða úr. Ég horfi kannski svolítið ferkantað á þetta. En ég vil fullvissa hv. þingmann um að ég vanmet ekki menningarlegt mikilvægi þjóðkirkjunnar, síður en svo. Ég er mjög mikill áhugamaður um trúarbrögð og hef verið viðstaddur trúarathafnir fjölmargra trúarbragða núna á árinu, m.a. hjá kristnum og hindúum og öðrum, þannig að mér finnst þau skipta máli en finnst þau samt vera kannski utan við umræðuefnið hér í dag.