150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Við munum alltaf þurfa að halda vel utan um menningarsögu okkar og menningararfleifð. Þó svo að ég sé ekki kristinnar trúar sjálfur finnst mér þessi arfleifð mjög mikilvæg og mikilvægt að við höldum henni vel til haga. Ég myndi samt segja að það sem blasir við mér í þessu frumvarpi er að hérna er verið að gefa þjóðkirkjunni tækifæri til þess að vera sjálfstæðari, til að standa jafnfætis öðrum trúfélögum. Mér finnst það mikilvægt skref vegna þess að þarna er líka verið að leiðrétta ákveðna misskiptingu sem hefur átt sér stað, misskiptingu sem á sér sögulegar stoðir. Við eigum ekki að láta eins og hún hafi aldrei átt sér stað, þvert á móti. En í öllu falli verðum við að koma fram af ákveðinni virðingu til að leysa vel úr þessu þannig að allir komi vel frá málinu.