150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:55]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni og fagna því að hv. þm. Smári McCarthy lýsi hér í ræðupúlti, ef ég hef skilið hann rétt, jákvæðni gagnvart megininntaki þess máls sem hér er til umfjöllunar. Við hv. þingmaður áttum orðastað áðan þar sem við fórum ansi víða. Þar á meðal barst í tal tímabilið í kringum 1600 vegna svokallaðs Indlandsdóms sem ég varð að játa að ég þekkti ekki vel og eiginlega ekki neitt. Þetta er á svipuðum tíma og siðaskiptin eru að ganga í gegn hjá okkur. Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann, ef hann treystir sér til í andsvari, um að útskýra betur fyrir mér hvað nákvæmlega var þar á ferðinni. Hvert var efnisinntak þess dóms sem þar féll? Með hvaða hætti telur hv. þingmaður að þar geti verið um einhvers konar hliðstæðu að ræða, þ.e. eitthvað sem við gætum horft til til að vega og meta það sem við erum svo aftur að fjalla um hér?