150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg þjónusta. Þetta á að vera veraldleg mikilvæg þjónusta, ekki guðfræðileg, og það að þjónustan sé mikilvæg er óháð því að hér er þessi vondi samningur sem fjallar um óendanlega mikið fjármagn til þjóðkirkjunnar yfir óendanlega langan tíma. Þetta er einn af sex ótímabundnum samningum sem ríkið hefur og hinir fimm eru þó skömminni skárri. Við verðum líka að hafa í huga að það að hv. þingmaður upplifi það einhvern veginn sem einhvern dónaskap að við skulum vera ósammála kirkjujarðasamkomulaginu, ósammála því að þjóðkirkjan eigi að fá endalaust af peningum til eilífðar, er ekki illa meint gagnvart þjóðkirkjunni, heldur er það gagnrýni á það að þjóðkirkjan skuli vera miklu fastari í sessi en allir aðrir, bara á grundvelli sögulegra skýringa. Við höfum eingöngu kallað eftir því að sanngirni sé höfð að leiðarljósi og síðan að sjálfsögðu að við reynum að færa þá þjónustu sem þarf (Forseti hringir.) að veita yfir í veraldlegt form þannig að allir geti notið sannmælis í henni.