150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er auðvitað keppikefli fyrir okkur öll að tryggja með öllum tiltækum ráðum að við komumst eins hratt og kostur er af þessum gráa lista FATF. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir yfirlýsingar um annað hefur þetta neikvæð áhrif á okkur. Talað er um, m.a. af seðlabankastjóra, óþarfa ímyndaráhættu, eins og hann orðaði það ágætlega, og eins eru fregnir af því að þetta trufli millifærslur og viðskipti í dag. Því er mjög brýnt að við göngum hratt og örugglega til verks og gerum það sem gera þarf.

Hv. þingmaður sagði að það væri fullljóst að við ættum ekkert erindi á þennan lista. Ég velti því þó aðeins fyrir mér að skýrsla hæstv. dómsmálaráðherra um ástæðurnar fyrir því að við enduðum á þessum lista dregur nú nokkuð skýrt fram að í raun og veru sé hér kannski á ferðinni fyrst og fremst skortur á trausti gagnvart íslenskum stjórnvöldum vegna þess seinagangs sem var árum saman við að bregðast við ítrekuðum tilmælum eftir fyrri úttektir líka, ekki bara þeirri síðustu, og að við gerðum harla lítið meðan við vorum í fjármagnshöftum til að undirbúa útgöngu okkar úr fjármagnshöftum, m.a. með tilliti til þeirra þátta sem sneru að athugasemdum sem við höfðum þó fengið í úttekt 2006, ef ég man rétt, en skýldum okkur á bak við höftin hvað varðaði nauðsynlegar úrbætur og viðbrögð.

Skráning raunverulegra eigenda, eins og ég þekki varnir gegn peningaþvætti í gegnum árin undanfarin 20 ár, er algjört grundvallaratriði í vörnum gegn peningaþvætti. Þess vegna velti ég dálítið fyrir mér í þessu tiltekna máli hvort hv. þingmanni sé kunnugt um hvenær fyrst bárust athugasemdir frá (Forseti hringir.) FATF vegna þessa. Það kemur mér dálítið á óvart að það hafi verið fyrst gert árið 2017 í þeirri úttekt sem þá var.