150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi bara komist mjög vel að kjarnanum. Hagsmunatengslin varðandi opinberu aðilana eru áhugaverð. Ein af spillingarsögunum sem mér bárust fjallaði mikið um ráðningar ráðgjafa, hægri vinstri, í einhverjum opinberum stofnunum. Svo er fræg ein gróusaga um ráðgjafa, þar sem einn úr þessu ráðgjafasamfélagi gaf sig opinberlega út fyrir að vera á lista hjá Viðreisn, eða eitthvað því um líkt, og spurningin sem kom sjálfkrafa í kjölfarið var: Hva, hvernig færðu þá vinnu? Það sýnir, held ég, rosalega margt um það hvernig grundvöllurinn í þessu er. Kannski var þetta brandari, en brandarinn auglýsir þá í rauninni dálítið hver raunveruleikinn er þar á bak við. Fólk skilur af hverju þetta er brandari og skilur af hverju það er fyndið á þennan súrrealíska hátt. Og það er einmitt nákvæmlega á þessu bili viðskiptaleyndar og samskipta við opinbera aðila sem við verðum að gera betur.