150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er minna, sem betur fer, þetta er að batna en það þarf líka að taka tillit til nýtingar þeirra varasjóða sem menn hafa þó gripið til. Hér var vitnað í umsögn Ríkisendurskoðunar en hún er ekki bara um kirkjuna. Ríkisendurskoðun bendir líka á ljósleiðaramálið, halla Landspítalans, erlenda sjúkrahúskostnaðinn og þjóðarleikvanginn. Það eru einstök atriði sem Ríkisendurskoðun segir að væri hægt að mæta með öðrum hætti en fjáraukalögum. Það er ekki bara kirkjan, ég vil ekki að þeir sem heima sitja og eru að horfa á þessa skemmtilegu umræðu haldi að þetta sé bara einstakt mál. Það eru fleiri mál sem Ríkisendurskoðun bendir á að eigi ekki heima í fjáraukalögum heldur annaðhvort í fjárlögum eða varasjóðsleiðinni. Það er það sem ég er að reyna að draga fram.

Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að við viljum hafa þetta hreinna (Forseti hringir.) en það er hér.