150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við verðum að átta okkur á því að sérstök uppbót vegna húsnæðisstuðnings, og húsnæðisstuðningurinn sjálfur, hefur skert svona bætur. Við vorum þar til í fyrra eða hittifyrra að skatta og skerða slíka styrki, þannig að það er eitthvað að koma. Nú er búið að finna þessa leið, og eins og ég segi vona ég svo heitt og innilega að búið sé að finna leiðina fram hjá því að plata fólk alveg upp úr skónum, vegna þess að það er verið að plata fólk og fara rosalega illa með það þegar verið er að færa því einhverja peninga frá ríkinu sem eiga að vera því til framfærslu, en það endar með því að það er allt skert, sérstök uppbót og annað, þar til þetta endar í núlli. Fólk tapar meira að segja vegna þess að það heldur að það sé að fá pening og eyðir honum. Þetta veldur fólki gífurlegum vandræðum. Ég vona heitt og innilega að þetta sé komið til að vera vegna þess að þetta hefur aldrei skeð áður, held ég, ekki sem (Forseti hringir.) ég hef séð, að búið sé að finna þessa leið til að ná út peningum og láta öryrkja fá, 10.000 kall, skatt- og skerðingarlaust.