150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[11:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er margt ágætt sem kom fram í frumvarpinu sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram og ber heitið Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla. Megintilgangurinn er að einfalda og samræma regluverk varðandi matvæli, efla og styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, markaðssetningu og vinnslu matvæla. Þetta er mjög góður og göfugur tilgangur og löngu orðið tímabært að þetta regluverk verði einfaldað og ég kem aðeins að því hér á eftir.

Það sem hefur hins vegar gerst í meðförum nefndarinnar er undanhald — og mér fannst til að mynda hv. þingmaður Miðflokksins Sigurður Páll Jónsson vera frekar hógvær þegar hann sagði að það væri gaman að loksins væri tekið tillit til ábendinga frá minni hlutanum. Það er vert að geta þess, og ég vil sérstaklega hrósa Miðflokknum fyrir það hvernig hann hefur haldið á sínum málflutningi. Ég er reyndar ósammála þeirri nálgun en það er augljóst að það er algjört undanhald af hálfu stjórnarflokkanna þegar kemur að landbúnaðarmálum. Og þegar stjórnarflokkarnir átta sig á því að Miðflokkurinn er í raun bókstaflega á móti málinu, vilja ekki sameiningu framleiðnisjóðs og AVS-sjóðsins, sjóðsins um aukið virði sjávarfangs, þá bara hverfa ríkisstjórnarflokkarnir frá annars ágætri fyrirætlan. Þess vegna vil ég miklu frekar hrósa Miðflokknum. Það er ákveðin angist sem sprettur fram af hálfu stjórnarflokkanna, sérstaklega og greinilega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þegar Miðflokknum dettur eitthvað í hug. Þetta frumvarp var að mínu viti ákveðin viðleitni til þess að taka skref inn í það sem mér finnst fýsilegt, að einfalda stjórnkerfið, auka og efla einn sjóð í matvælum og sameina AVS-sjóðinn og Framleiðnisjóð landbúnaðarins í öflugan Matvælasjóð. Þeir fyrirvarar sem Miðflokkurinn gerði — eflaust er margt til í þeim en ég held hins vegar að það sé hægt að ráða bót á þeim við sameininguna. Við þetta hrekkur ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í baklás og út frá pólitískri afstöðu finnst mér það hafa verið svolítið gaman og fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins. Síðan kemur framhaldsnefndarálitið. (Gripið fram í.) Flokkarnir búnir að fara mjög gaumgæfilega yfir málið með gestum. Miðflokkurinn hefur bent á veikleikana í málinu og þá er einfaldlega farið eftir því sem Miðflokkurinn segir. Þannig að ég bið þingmenn Miðflokksins um að vera ekki svona hógværa í sinni nálgun út af þessu.

Þá kem ég að þeim sjónarmiðum sem ég vil halda á lofti. Ég studdi einmitt grunnhugsunina í frumvarpinu, að reyna að einfalda regluverkið. Ég held að það skipti bændur og matvælaframleiðendur gríðarlega miklu máli. Við áttum okkur á því að kerfið eins og það er núna, annars vegar heilbrigðiseftirlitið á höndum sveitarfélaganna og síðan erum við með MAST, Umhverfisstofnun eftir atvikum, er einfaldlega allt of flókið og allt of dýrt sem á endanum bitnar annars vegar á bændum og hins vegar á neytendum, þangað fer kostnaðurinn. Skilvirknin verður fyrir vikið ekki nægileg þannig að ég er ánægð með þau skref sem þó er reynt að taka hér af veikum mætti hvað varðar einföldun regluverks. Því að samhliða því að regluverkið sé einfaldað er líka hægt að gera sterkar og ríkar kröfur varðandi gæðamál í landbúnaði. Þar eru að mínu mati sóknarfæri fyrir matvælaframleiðslu hér á Íslandi. Þannig að ég hefði svo gjarnan viljað sjá okkur fara í ferli sem lýtur að því að búa til einn öflugan Matvælasjóð. Gott og vel. Nú er ríkisstjórnin að taka þetta til sín og þá sjáum við hvað verður úr, hvort það verði einhliða nálgun landbúnaðarins sem ráði eða í rauninni hin stórhuga sýn sem mér finnst spennandi og fannst gæta að vissu leyti hjá sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra, að setja fram málið með þessum hætti. Sóknarfærin fyrir íslenska matvælaframleiðslu eru að mínu mati gríðarleg og ég hef sagt það margoft í þessum stól. Ég tel að við eigum ótrúlega mikið inni og hafa þó verið stigin mikilvæg skref til framþróunar hjá landbúnaðinum, hvort sem við tölum um sauðfjárræktina, mjólkurframleiðslu eða grænmetið. Það er ýmislegt annað sem mun bætast við ef við veitum kerfinu og framleiðendunum, bændum, svigrúm til nýsköpunar, svigrúm til þróunar. Það verðum við að gera og nýta til þess hvert tækifæri. Mér finnst þau ekki nýtt nægilega vel hér og sérstaklega ekki eftir meðferð nefndarinnar. En gott og vel.

Ég vil koma að þeirri gagnrýni minni varðandi Matvælasjóð að ég tel þetta vera einstaklega gott tækifæri. Þetta eru heildarhagsmunir matvælaframleiðslunnar í landinu. Við getum sótt fram enn frekar með markaðssetningu á okkar vörum, varðandi þróunarmöguleika, og ég tel gríðarlega mikilvægt að þessar mikilvægu atvinnugreinar í gegnum tíðina, sjávarútvegur og landbúnaður, setji markið hátt og setji sér sömu viðmið og ekki minni en gert er í öðrum atvinnugreinum. Þá er ég að tala um samkeppnisnálgunina í svona sjóði. Ég vara við því að við förum að búa til alls konar aukareglur til að koma til móts við ákveðin sjónarmið. Við getum komið til móts við þau í gegnum Byggðastofnun, til að mynda. Ef við ætlum að halda áfram að styrkja ákveðin svæði með ákveðin sóknarfæri í huga sé ég fyrir mér að það sé gert í gegnum sóknaráætlanir landshlutanna og í gegnum Byggðastofnun. En Matvælasjóður á að mínu mati að vera samkeppnissjóður því að það eykur traust á sjóðnum, eykur traust á þeim verkefnum sem eru studd og ýtir undir aðhald við þau verkefni. Það styrkir atvinnugreinina. Við höfum séð það gerast í sjávarútvegi og það hefur gerst í iðnaði, í nýsköpunarfyrirtækjum ýmsum, að þegar þau fara eftir því regluverki sem til að mynda hefur verið byggt upp innan Rannís, eykur það trúverðugleika á kerfinu. Ég held að það séu ótrúlega mikil verðmæti fólgin í því, ekki síst fyrir landbúnaðinn sem, eins og ég segi, hefur gríðarleg sóknarfæri. Þannig að það er mín gagnrýni. Ég hefði viljað sjá Matvælasjóð verða að veruleika en við sjáum hvað setur. Við sjáum hvað gerist síðan í vor og ég vil brýna ríkisstjórnarflokkanna — og eftir atvikum Miðflokkinn líka — til þess að ýta þessu máli áfram með það í huga að búa til öflugan Matvælasjóð vegna þeirra sóknarfæra sem eru fram undan og ekki slá af kröfum varðandi samkeppnismál innan sjóðsins.

Varðandi heimaslátrunina sem kom svolítið til umræðu í nefndinni tel ég það vera gríðarlega spennandi að reyna að auka tækifæri bænda til að setja fram með sínum hætti þær vörur sem þeir sjá um að framleiða á sinni jörð. Mér finnst svolítið gott það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að heimaslátrun á sauðfé allt árið gæti valdið byltingu í framboði á fersku kjöti og bætt afkomu sauðfjárbænda. Slík slátrun kæmi ekki í veg fyrir rekstur öflugra sláturhúsa og afurðastöðva sem áfram gegndu lykilhlutverki í slátrun og markaðssetningu sauðfjárafurða í landinu.“

Þetta skiptir máli en það þurfti náttúrlega samt að klappa aðeins milliliðunum þarna. Allt í lagi með það. En ég held að milliliðirnir þurfi að fara að vinna og starfa enn frekar í þágu bænda. Ég kalla enn eftir því að gerð verði úttekt á afurðastöðvakerfinu hér heima sem verði til þess að styðja enn frekar við bændur því mér hefur allt of oft þótt að bændur hafi lítið að segja þó að það sé alltaf verið að segja að afurðastöðvarnar séu í eigu bænda. Mér finnst bændur sjálfir hafa furðu lítið um það að segja hvernig málum vindur fram þar og hvernig framkvæmd er háttað af hálfu afurðastöðvanna. Þannig að ég vil hvetja meiri hlutann til að ýta á eftir slíkri endurskoðun með það í huga að styðja við frelsi og svigrúm bænda í greininni.

Síðan kemur það sem ég er mjög ánægð með:

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið að víða í Evrópu virtist þetta vera mögulegt“ — þ.e. heimaslátrun — „og kallað eftir því að slíkt fyrirkomulag yrði heimilað hér.“

Ég er þakklát meiri hluta nefndarinnar fyrir að draga það fram að regluverk Evrópu er ekki alltaf svo íþyngjandi. Við verðum, vel að merkja, að hafa í huga að við erum undanþegin landbúnaðarkafla Evrópusambandsins. Og hvað gerum við hér heima? Það er oft talað um að við getum bara verið miklu frjálsari og gert þetta eftir okkar höfði, en við þrengjum að markaðnum. Við þrengjum að athafnafrelsi bænda í þessu tilviki í staðinn fyrir að víkka það út eins og til að mynda Evrópusambandið hefur gert. Ég hef margoft bent á það. Hvað gerum við t.d. í mjólkuriðnaðinum? Við förum ekki þá leið að láta almennar samkeppnisreglur gilda um mjólkuriðnað. Við þrengjum að og látum sérreglur gilda um mjólkuriðnaðinn af því að við getum leyft okkur það, af því við erum ekki undir ákveðnu agavaldi sem kemur frá EES-samningnum, af því að landbúnaðarhlutinn er undanskilinn. Þetta nefni ég sem dæmi því að maður heyrir oft talað um að reglubyrðin sé svo svakaleg hjá Evrópusambandinu. Við höfum svigrúm til þess að hafa reglurnar frjálsari en þrengjum þær. Ég spyr: Í hverra þágu er það? Þess vegna finnst mér vænt um að meiri hlutinn dragi fram að frelsi fyrir bændur í Evrópu, m.a. til heimaslátrunar, er meira en hér og ég vil hvetja fólk og stjórnsýsluna til að skoða þetta sérstaklega.

Ég vil taka undir um endurskoðun á regluverki varðandi örsláturhús og heimaslátrun. Auðvitað með tilliti til matvælaöryggis, að sjálfsögðu. Það er enginn að tala um neitt annað en það er samt hægt að stíga þessi skref eins og menn hafa reynslu af, m.a. í Noregi, Svíþjóð og á öðrum stöðum innan Evrópusambandsins.

Svo að ég fari aðeins líka í aukamál þá bendi ég á mál sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sett fram í samráðsgáttinni, held ég. Það er því miður ekki farið í gegnum ríkisstjórnina og ég er svolítið hrædd um að það geri það kannski ekki. En það er angi af því að ýta undir að bændur geti selt beint frá býli, m.a. áfengi, ef þeir hafa verið í slíkri framleiðslu. Það er verið að benda á brugghúsin, að brugghúsin sjálf geti selt sína framleiðslu beint af bænum, beint af býli. Norskir bændur, til að mynda, með sín frægu eplamúsvín sem eru 8–12% vín, framleidd úr norsku eplunum, geta selt beint af býli og hafa sérhæft sig í framleiðslu á slíkum drykkjum. Ég held við eigum að opna fyrir slíka þætti og vonast til að fá tækifæri til að ræða slík mál hér.

Það er margt hægt að gera til að auka fjölbreytni í landbúnaði og ég tel það verði einna best gert með því að opna landbúnaðarkerfið, eins og ég hef verið að benda á hér í tengslum við heimaslátrun og fleiri þætti. Ég held að það opnist m.a. með því að setja á stofn Matvælasjóð. Ég held að það muni opna möguleika fyrir greinina því kyrrstaða gefur engum neitt. Ég held að breytingar séu hreyfiafl til nýsköpunar og enn frekari sóknar fyrir landbúnaðinn.

Ég undirstrika að ég hefði viljað sjá enn frekari einföldun á eftirlitskerfinu. Það er ekkert í þessu máli sem segir mér að eftirlitskerfið, þ.e. virkni á milli heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og síðan MAST og Umhverfisstofnunar, megi ekki með einhverjum hætti einfalda markvisst. Ég sé ekki að sett hafi verið af stað ferli til að einfalda. En það er kannski eftir öðru. Þessi ríkisstjórn er nú frekar fræg fyrir að setja mál í nefnd, stýrihópa eða starfshópa og það getur verið að hún geri það. Í það heila, virðulegi forseti, fannst mér margt mjög spennandi og áhugavert í þessu máli og mest spennandi hlutinn kom að hluta til frá Evrópusambandinu og síðan var samræming og einföldun á regluverkinu. Mér finnst því miður að í meðförum nefndarinnar, sem kemur kannski ekki á óvart miðað við hvernig hún er samansett, hafi tennurnar verið dregnar úr því sem skiptir að mínu mati miklu máli, sóknarfærum fyrir matvælagreinar í íslensku samfélagi, hvort sem það er í gegnum stofnun Matvælasjóðs eða með því að auka svigrúm framleiðanda og bænda til aukinnar verðmætasköpunar. En eins og ég segi mun ég styðja hluta af þessu en ekki aðra þætti og finnst tækifærið svolítið vannýtt í þessu máli.