150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[12:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar hér í lokin að segja nokkur orð um þetta mál sem við höfum verið að fjalla um. Eins og hefur komið fram var samþykkt framhaldsnefndarálit með breytingartillögu í atvinnuveganefnd í gær. Atvinnuveganefnd er búin að skoða þetta mál frá öllum hliðum og það var mjög jákvæður vilji fyrir því að mæta þeim sem höfðu áhyggjur af því hvernig búið yrði um framleiðnisjóð innan nýs Matvælasjóðs. Ég held að það sé gæfuspor að hafa lent því þannig að við skoðum það áfram með bændum hvernig best verður um þetta búið í framhaldinu og komum með nýtt mál á næsta ári þegar sú niðurstaða hefur fengist.

Ég vil undirstrika það að mér finnst hugsunin á bak við Matvælasjóð, og að ein lög gildi um öll matvæli og matvælaframleiðslu á Íslandi, mjög mikið framfaraskref. Allar greinar sem eru með hjá sér framleiðslu einhvers lags matvæla eiga að sjá hag sinn í því að hægt sé að sameina það í einn matvælasjóð. Vissulega þarf að horfa til þess hvert hlutverk sjóðanna hefur verið. Eins og kom vel fram áðan hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni hefur framleiðnisjóður haft mikil áhrif og styrkt byggðir víða og menn hafa fengið stuðning við að horfa til nýsköpunar í sveitum landsins. Við þurfum að standa með því áfram innan þessa sjóðs sem vonandi fer af stað fyrr en síðar. Nýtt frumvarp kemur um það þegar við náum góðri sátt um hvernig um það verður búið.

Ég vil með þessum orðum undirstrika, eins og hefur komið fram, að það er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að settur verði á fót Matvælasjóður. Horfa á til aukinnar verðmætasköpunar, nýsköpunar og matvælaöryggis og alls þess sem við viljum gera hér á Íslandi og ýta undir innlenda framleiðslu, sama hvort það er fiskur, grænmeti, kjöt eða hvað annað það er. Það er mjög mikilvægt að hver þjóð standi með matvælaframleiðslu innan lands og það fellur vel að loftslagsmarkmiðum að draga úr kolefnisspori og geta framleitt sem mest hér innan lands fyrir þörfina. Og ekki má gleyma blessuðum fjallagrösunum. Það er langt síðan að hefur verið minnst á þau úr þessum ræðustól. Þegar talað var um „eitthvað annað“ var sagt að það væri stóriðja eða fjallagrös. En við erum sem betur fer komin langt frá þeirri hugsun að það sé ekkert val annað en stóriðja eða fjallagrös. Fjallagrösin hafa komið að góðum notum víða til sveita hjá forfeðrum okkar og reynst drjúg, bæði til að gera seyði úr og nota í sláturgerð.

Ég vil ítreka að við stöndum með bændum og búaliði og öllum þeim sem framleiða matvæli á Íslandi og komum á næsta ári með frumvarp um öflugan Matvælasjóð sem heldur utan um allar þessar greinar.