150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf áhugavert að fylgjast með umræðu um tollamál og tollkvóta, nokkuð sem við höfum blessunarlega lagt af í flestum vöruflokkum nema þegar kemur að matvælum og sér í lagi innlendum landbúnaðarafurðum. Mér finnst þetta alltaf svo kómískt. Þetta er svona sovéskt fyrirkomulag — sem reyndar fer þeim þremur Framsóknarflokkum sem hér eru í stjórn ákaflega vel. Að hér inni séum við best til þess fallin að meta hver sé þörf á markaði, á hvaða matvælum og á hvaða tíma, hvenær sé skortur á þeim og hvenær ekki, hvenær þurfi á innflutningi að halda og hvenær ekki. Raunar erum við svo góð núna að við virðumst sjá okkur fært að negla niður dagsetningar til eilífðarnóns. Það þurfi ekkert að hafa áhyggjur af þessu framar.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann og framsögumann þessa máls: Væri ekki nær lagi að horfa til m.a. umsagnar eða minnisblaðs sem kom frá Neytendasamtökunum um að það væri kannski orðið tímabært að leggja af þetta afgamla afdalakerfi, beina frekar beinum stuðningi til bænda en leyfa neytendum að njóta ávinnings af lægra matvöruverði en ella? Við hljótum að geta verið sammála um, ég og hv. þingmaður, að matvælaverð hér er mjög hátt í öllum alþjóðlegum samanburði, mun hærra en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og yfirleitt trónum við hvað hæst, sérstaklega þegar kemur að þessum sömu innlendu landbúnaðarafurðum. Er ekki orðið tímabært að láta af sovéskum miðstjórnartækjum eins og hér eru á ferðinni og fara bara í beingreiðslur til bænda í staðinn og leyfa neytendum að njóta líka ávinnings af þeim stuðningi sem við sannarlega erum eftir sem áður sammála um að veita til innlends landbúnaðar?