150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum, úthlutun tollkvóta. Ég ætlaði aðeins að koma hingað upp bara svona til að taka þátt í þeim áhugaverðu umræðum sem eru að myndast út frá þessu frumvarpi og þeim nefndarálitum sem mælt hefur verið fyrir. Hv. þm. Þorgrímur Sigmundsson fór í gegnum nefndarálit sem við erum báðir á og það er stutt og hnitmiðað og í raun og veru bara til að árétta að við vildum taka fram að við værum ekki á móti málinu eins og það er lagt fram en vildum að það kæmi fram að farið væri í heildræna stefnu. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að fara í vinnu um sjálfbærni í landbúnaði og matvælaframleiðslu hér á landi og finnst mér það góður punktur og hefði viljað sjá þeirri vinnu ljúka áður en við færum í þetta. Við spyrjum: Hvers vegna liggur svona mikið á? En þetta er sem sagt komið fram og er hér til afgreiðslu. Það er búið að gera töluverðar breytingar á frumvarpinu frá því það var lagt fyrst fram, t.d. eins og hefur komið hér fram með þessi 400 tonn af svínasíðum sem tekin voru út. Er það í raun og veru vel, miðað við umsagnir og mæli þeirra gesta sem komu á fundinn sem eru beinir hagsmunaaðilar í þessu ræktunarmegin. En síðan var það ferðaþjónustan og þeim megin var talað um vöntun. Þá kemur maður einmitt inn á það sem mikið er rætt í þessum geira, landbúnaðargeira eða matvælaframleiðslu, að gegnsæi í matvælabirgðum virðist ekki vera í lagi frekar en við urðum vitni að á síðasta sumri í sambandi við lambakjötið. Maður kallar eftir því að gegnsæi í matvælabirgðum heilt yfir sé betra og að einhvern veginn sé hægt að sjá sannarlega stöðu matvæla því að sitt sýnist hverjum og menn, hvorum megin sem þeir sitja við borðið, vilja túlka það á sinn hátt og gefa kannski ekki alltaf upp réttar tölur.

Í ljósi þeirrar umræðu sem núna hefur farið fram í ræðum hér á undan, sem er mjög athyglisverð, verður mér hugsað til þeirra skoðana sem ég sjálfur hef og minn flokkur um þessi mál eins og í sambandi við matvælaöryggi og landbúnað og allt sem að honum lýtur. Við myndum okkur stefnu í ljósi aðstæðna. Nú er loftslagsumræðan hátt á lofti, kolefnisspor og annað því um líkt. Þar eins og í öllu öðru sýnist sitt hverjum og hafa verið skrifaðar greinar hægri, vinstri þar um. Hér var minnst á Þórólf Matthíasson og grein sem hann skrifaði. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vitnaði í hana. Það eru margir búnir að skrifa greinar eftir það að hrekja þá grein, lærðir og leikir pennar, þannig að ég hrökk mjög við þegar ég las þessa grein, að það væri minna kolefnisspor að flytja lambakjöt frá Ástralíu til Íslands en að rækta það hérlendis. Það er bara eitthvað í minni grunnu vitund sem segir mér að það geti ekki staðist. En í ljósi umræðu um þessi mál ættum við að móta skýra stefnu um að vera sjálfbær í matvælum. Við getum samt sem áður flutt inn matvæli en værum fyllilega sjálfbær í matvælum, gætum framleitt nógu mikið af matvælum. Á Íslandi er að mínu áliti besti matur í heimi framleiddur, það er ekkert flóknara en það. Og af hverju einsetjum við okkur ekki að framleiða mat sem dugir okkur öllum ef til þess kæmi að við þyrftum á því að halda að eingöngu maturinn sem framleiddur er á Íslandi væri sá matur sem við hefðum aðgengi að? Það gæti ýmislegt komið til, eins og náttúruhamfarir eða eitthvað þaðan af verra sem við ráðum ekkert við, og þurfum að geta brugðist við til að geta lifað áfram á landinu. Þá hefðum við þær matarbirgðir og þá framleiðslu hér heima sem myndi duga okkur til að lifa af. Þetta kemur einmitt rökrétt inn í þá vinnu að minnka kolefnisspor og pakkar saman svo mörgum þáttum í því hvað þetta er skynsamlegt í mínum huga.

Þegar umræða um hlýnandi loftslag á jörðinni komst á flug man ég eftir því að formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, talaði um að í þessu fælust tækifæri fyrir okkur Íslendinga og það var gripið á lofti hjá mörgum sem kaldhæðni eða fráleit nálgun að tala um að um tækifæri væri að ræða. En það sem hann meinti, og þeir vita sem taka mark á þessari tækifærishugsun, er að með hlýnandi loftslagi eykst geta okkar til að rækta hér á Íslandi. Það gefst lengri tími til þess. Sumrin eru nú ekki löng hérna en þau gætu þá lengst, það væru betri skilyrði til að rækta og annað þar fram eftir götunum. Þannig að ef fer fram sem horfir í því að loftslag haldi áfram að hlýna hljóta skilyrði til ræktunar að verða betri. Við eigum að nýta okkur þetta og móta stefnu í samræmi við það þannig að við getum stutt við þá sem framleiða matvæli, hvort sem það er kjöt eða grænmeti eða þar fram eftir götunum, að hægt sé að byggja betur undir það.

Fyrir hádegi, þegar við vorum að ræða aðra hlið á búvörulögum, sameiningu sjóða og annað slíkt, kom upp í pontu hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og talaði um að Miðflokkurinn væri orðinn ráðandi á þinginu. Ég fór nú að hlusta vegna þess að maður heyrir þetta ekki alltaf í ræðum og svo er náttúrlega Miðflokkurinn í minni hluta, ekki í ríkisstjórn. En þetta var athyglisvert. Hv. þingmaður sagði þetta vegna þess að sá sem hér stendur hafði talað um að það væri þó tekið eitthvert mark á Miðflokknum í sambandi við atriði sem var breytt í fyrrnefndu frumvarpi í morgun. Þá kom mér líka í hug að koma með uppástungu í ljósi kosningaúrslita í Bretlandi sem hafa verið kunngjörð. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi var að vinna stóran sigur og þar með eru miklu meiri líkur á því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Í ljósi þeirra úrslita, væri þá ekki rétt að nýta endurskoðunarákvæði í tollasamningi við ESB bara nú þegar? Ég sting upp á því að ríkisstjórn Íslands taki þetta upp í ljósi þessara úrslita í Bretlandi og nýti sér þetta endurskoðunarákvæði strax og hvet ég ríkisstjórnina til dáða í þeim efnum.