150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:02]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil hafa nokkur orð um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum. Þegar umræða um tolla á landbúnaðarvörum er annars vegar skiptast menn yfirleitt í tvö lið. Sumir vilja algjört tollfrelsi og aðrir vilja aukna vernd og er ég nú í síðarnefnda hópnum og tilheyri einnig flokki og er einnig í ríkisstjórnarsamstarfi sem talar fyrir því að stuðla að því að efla íslenskan landbúnað. Þetta snýst alltaf um hvaða leiðir menn fara í því samhengi.

Frumvarpið byggir á ákveðnum tollasamningi sem gerður er 2015 við Evrópusambandið og í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að fjalla um kjöt og garðávexti eða grænmeti. Þegar kemur að kjötinu eru ákveðnir magntollar sem þar um ræðir sem taka að fullu gildi árið 2021 og í því samhengi getum við nefnt að í svínakjöti eru þetta 764 tonn, í nautakjöti 791 tonn og í alifuglunum 1.015 tonn. Hér hafa verið töluvert til umræðu 400 tonn af svínasíðum. Sem betur fer eru þau ekki lengur inni, ekkert þess efnis að menn geti flutt þau inn á opnum tollkvótum, því að þegar menn fóru að skoða málið varðandi tollskrárnúmer og annað — það var í fyrsta skipti núna í haust sem menn fóru að skrá svínasíður sérstaklega — kemur í ljós að í september og október voru flutt inn rétt um 30 tonn af svínasíðum en þessi opni tollkvóti bauð upp á 400 tonn aukalega á ári. Ef við deilum þeim tonnafjölda sem var fluttur inn í september og október eru þetta liðlega 140 tonn sem væri þá væntanlega hæfilegur innflutningur. Hér á landi er talað um að það séu framleidd um það bil 500 tonn af svínasíðum og þessi opni tollkvóti átti að vera 400 tonn af svínasíðum. Eðlilega höfðu framleiðendur áhyggjur af þessu. Þessir sömu framleiðendur hafa ekki bara áhyggjur af aukinni samkeppni erlendis frá við sínar vörur heldur einnig að nú er regluverkið þannig hjá okkur að við gerum kröfur til þeirra framleiðslu varðandi aðbúnað gripa. Þær kröfur sem við gerum eru þær langhörðustu í heimi, ætla ég að fullyrða. Þetta þurfa menn að uppfylla á ákveðnum tíma og þessir ákveðnu framleiðendur þurfa einnig að hafa ákveðinn fyrirsjáanleika inn í framtíðina. Menn þurfa að hafa ákveðinn rekstrargrundvöll til að geta ráðist í þær miklu breytingar sem ætlað er að fara í. Við getum tekið sem dæmi pláss í gotstíu. Miðað við það sem er í dag þurfa gotstíurnar að stækka um helming. Þetta kostar allt peninga og því er mjög mikilvægt að menn hafi eitthvað fyrir framan sig sem þeir geta miðað við.

Sú tollvernd sem hefur verið upp á síðkastið og hefur komið fram í viðtölum við ákveðna framleiðendur er á þann veg að maður getur flutt inn vöru á fullum tollum erlendis frá en samt verið tiltölulega samkeppnishæfur, þótt maður flytji hana inn á fullum tollum. Síðan tala menn um að það sé um að gera að fella alla tolla niður en hafa einhverjar beingreiðslur á móti. En málið er bara að í þeim heimi sem við lifum í eru allir með einhvers konar vernd á sinni framleiðslu. Ef við byggjum í hinum fullkomna heimi, sem því miður er ekki til, værum við væntanlega ekki með svona tolla. En þetta er bara staðreyndin og við lifum við þetta.

Hér hefur verið rætt um loftslagsmál og matvælastefnu. Hv. þm. Ari Trausti kom að venju með áhugaverða punkta í sínu andsvari áðan um hvernig við mætum því. Miðflokkurinn kom einnig inn á það í sínu nefndaráliti þar sem kallað er eftir langtímasýn. Það er bara þannig að stjórnvöld eru að vinna að matvælastefnu, það er starfshópur í gangi sem er að vinna að henni og auk þess eru viðræður hafnar milli bænda og stjórnvalda varðandi landbúnaðarstefnu til framtíðar. Við ætlum að efla íslenska matvælaframleiðslu, það er í stjórnarsáttmálanum og þá stöndum við við það. Ég tel að þetta frumvarp eins og það liggur fyrir frá meiri hlutanum eigi að geta gefið okkur tækifæri til framtíðar litið í þessu samhengi. Vissulega horfum við bara á tollasamninginn. Það eru þau tonn sem ég nefndi áðan. Það er ekki færi á þeim opnu tollkvótum sem voru til umræðu síðastliðið haust. Þá flytja menn bara inn á fullum tollum umfram það. Þá kemur til hollenska leiðin sem er á bls. 4 í nefndaráliti. Þar er sérstaklega tiltekið það sem viðkemur garðyrkju.

Ef við förum aðeins í garðyrkjuna þá voru uppi töluvert háværar raddir frá framleiðendum í henni um að mönnum væri þröngur stakkur sniðinn í þessu efni. Vissulega er það þannig að við erum ekki að framleiða nægjanlegt magn af tegundum og er tekið tillit til þess í þessu útboðskerfi. En við stöndum okkur aftur á móti vel í ýmsum tegundum, eins og t.d. kartöflum og gulrófum, og menn eru að þróa aðferðir til að geyma vöruna sem lengst. Þetta er viðkvæm vara og hana þarf að geyma við rétt hitastig og bændur telja sig vera tilbúna til að takast á við þá áskorun, að framleiða vörur sem þeir geta boðið upp á allt árið og er það vel. Því er mjög mikilvægt að stjórnvöld sýni því skilning að bændur hafi framtíðarsýn og horfi til þess með bændum að vera ekki að bregða fyrir þá fæti þegar menn koma með svona löggjöf. Ég tel að í frumvarpinu hafi menn ágæta sýn á það, hvort sem það eru bændur eða stjórnvöld, að mæta saman og horfa til framtíðar í því að menn geti skaffað þau matvæli sem við eigum að geta skaffað. Og síðan er annað bara flutt inn.

Það var komið inn á það áðan að við værum svolítið gamaldags í loftslagsmálunum. Mig minnir að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi komið inn á það að menn væru ekkert að horfa til loftslagsmála. En þá vil ég bara minna á að í nýgerðu samkomulagi nautgripabænda við ríkið er loftslagskafli. Sauðfjárbændur hafa stefnt að kolefnishlutleysi árið 2027. Að þessum málum er verið að vinna og það er fjarri því að íslenskur landbúnaður sitji eftir þegar kemur að umræðum um loftslagsbreytingar og að takast á við þá vá sem fram undan er. Við getum svo sem farið í aðra umræðu um það en ég ætla að einbeita mér að því að tala um þetta frumvarp.

Síðan er það alltaf þannig að menn greinir á um leiðir. sumir hafa talað um tollfrelsi og þá styrki á móti til bænda. Ég er svo sem ekki með neina sérstaka lausn á því. En þetta er það kerfi sem við vinnum með í dag og sú umræða hefur ekki verið tekin, að mér vitandi, á breiðum grunni að menn ætli að fara alla þá leið, enda held ég að þeir viti ekki heldur hvað sú leið komi til með að kosta. Bara þessi breyting hér, breytt útboðskerfi, kostar væntanlega ríkissjóð í tekjumissi um 400 millj. kr., kannski 500 milljónir, eitthvað svoleiðis. Vissulega er það gert neytendum til hagsbóta og við erum með ákveðin kerfi í landbúnaði. Mönnum hefur verið tíðrætt um undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og önnur kerfi en öll þessi kerfi eiga náttúrlega og eru til þess að skaffa neytendum vöru á eins hagstæðu verði og mögulegt er — en gæðin eiga líka alltaf að vera fyrir hendi. Með þessu er ég ekki að segja að gæðin séu ekki erlendis, það er langur vegur frá.

Virðulegi forseti. Ég hugsa að ég láti hér staðar numið en ítreka bara að þegar menn vinna að svona verkefni þurfa þeir náttúrlega að skiptast á skoðunum og takast á og það er mín trú að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir frá meiri hluta atvinnuveganefndar sé verulega góð og ég myndi segja ásættanleg fyrir framleiðendur og neytendum til hagsbóta.