150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, það var fróðlegt að heyra þessa leiðréttingu á útreikningum. En það er kannski í sjálfu sér ekki stærsta málið heldur horfum við til þess að meginráðlegging helstu sérfræðinga er einmitt sú að við þurfum að draga verulega úr kjötneyslu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Langmesta losunin í matvælaframleiðslu er í tengslum við kjötneyslu. Það hafa auðvitað margir aðrir þættir verið ræddir hér. Það hefur t.d. verið talað um það í tengslum við kjúklingarækt að út frá flutningsvinklinum einum og sér megi horfa til þess að við flytjum inn meira og minna allt fóður í kjúklingaræktina, tvö kíló á móti hverju kílói af kjöti. En það er kannski ekki heldur stærsta málið heldur einmitt sú staðreynd, og ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi einmitt nefnt það sem eitt meginráðið fyrir okkur til að minnka kolefnisspor mannkyns, að númer eitt, tvö og þrjú þarf að minnka kjötneyslu. Það er það sem er að gerast. Unga kynslóðin er að draga verulega úr kjötneyslu. 50% ungra kvenna á Íslandi neyta ekki kjöts og það er þróun sem virðist ætla að verða mjög sterk og áframhaldandi. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki sé ráð að við horfum til þess hvernig við ætlum að endurskipuleggja íslenskan landbúnað út frá þeirri lýðfræðilegu þróun sem er að verða. Þá er ég ekkert endilega að segja að lausnin sé að flytja inn kjöt á móti. Það er ekki það sem ég hef áhyggjur af heldur miklu frekar að við séum að breyta stuðningnum í landbúnaði þannig að hann styðji betur við bæði bændur og framleiðslu þeirra en um leið markmið okkar í loftslagsmálum út frá þeirri staðreynd að við þurfum væntanlega að draga verulega úr kjötneyslu til lengri tíma litið til að minnka kolefnissporið.