150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um þetta ágæta mál. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna neitt mjög mikið en vil þó þakka bæði formanni nefndarinnar og framsögumanni og auðvitað ráðherranum fyrir mjög gott samstarf í þessu máli. Eðlilega var töluvert tekist á um það í nefndinni. Þau sjónarmið voru uppi, sem ég aðhyllist mjög, að auka svigrúm bænda til að auka framleiðslu sína. Niðurstaða þessa máls er sú að það er gert. Tímabilum tollleysis eða lágra tolla fyrir hverja afurð var breytt í samræmi við það sem nefndin og ráðgjafar hennar telja að bændur geti staðið undir. Það er auðvitað mikilvægt að það náist. Þess vegna er nú endurskoðunarákvæði í frumvarpinu um að árið 2021 verði skoðað hvort það sem við erum að setja hér fram náist og jafnvel að bændur verði enn betur í stakk búnir til að auka framleiðsluna. Ég held að það sé sú stóra framtíðarsýn sem við þurfum að hafa í þessum sal og í atvinnuveganefnd, að auka framleiðslu landbúnaðarvara þannig að við verðum sjálfbær. Garðyrkjan er sérstaklega áhugaverður kostur til að Íslendingar geti orðið sjálfbærir í framleiðslu á garðyrkjuafurðum. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut sem hér er mörkuð og vonandi að þetta verði bændum og neytendum til hagsbóta. Oftast fara þeir hagsmunir saman. Á þeim tímum sem talað er um kolefnisspor og kolefnisjöfnun skilar garðyrkjan, sem framleiðir núna u.þ.b. 7% af þeim matvælum sem við neytum, 1% kolefnis út í andrúmsloftið þannig að hún stendur sig afar vel í því sambandi.

Ég þakka framsögumanni fyrir hennar góðu vinnu, formanni nefndarinnar fyrir samstarfið sem og ráðherranum og allri nefndinni.