150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

316. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessar spurningar. Við auðvitað heyrðum áhyggjur, sérstaklega skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna, um þessi mönnunarmál yfir höfuð og svo koma aftur aðrir, þ.e. félag þeirra sem gera út strandveiðibáta og aðra slíka, sem höfðu aðrar skoðanir. Oft snýst þetta um hvernig nákvæmlega mannað er. 12 metra bátar geta verið með stærri vélar en sumir 15 metra og öfugt, þannig að þarna er um að ræða nokkuð flókna stöðu. Það kom fram að þessi strönd, eins og fyrirspyrjandi nefnir, hafi sennilega mörg hver stafað af því að menn sofna á verðinum og sigla í strand. Þá er spurningin, eins og hv. fyrirspyrjandi minnist á, hvað er hægt að gera í því. Ég vísa akkúrat á þennan starfshóp. Við erum í raun og veru að fara fram á að sá starfshópur sem þarna er skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Samgöngustofu, Tækniskólanum og ég tala nú ekki um Slysavarnaskóla sjómanna, taki fyrir öll þau mál sem varða öryggi þegar þessir bátar og þessi skip eru annars vegar og þar með líka hvernig væri hægt að koma í veg fyrir að menn sofni. En nú er það þannig að það er ekki einn maður á bát sem sofnar kannski heldur eru fleiri á honum. Það er hægt með einhverjum ráðum að setja einhverjar reglur sem tryggja að þarna sé sett undir þennan leka. En ég held að það verði ekki mín orð hér sem ráði með hvaða hætti það verði heldur starf þessa starfshóps.