150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir og fagna því að þetta þingmál hafi fengið umfjöllun og afgreiðslu í velferðarnefnd Alþingis. Við vitum að það er alls ekki sjálfsagt í tilviki þingmannamála og kann ég formanni nefndarinnar, Helgu Völu Helgadóttur, og hennar félögum, svo sem Ólafi Þór Gunnarssyni og Höllu Signýju Kristjánsdóttur, mínar bestu þakkir fyrir að veita þessu máli brautargengi. Þetta skiptir máli og það er gaman að það sé þverpólitískur stuðningur á bak við mál eins og þetta. Þetta þingmál var hið fyrsta sem ég lagði fram á þessu þingi í haust og var eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar og ég held að þetta sé eitt af þessum málum sem geta skipt miklu máli fyrir fjöldann allan af fólki hér á landi.

Herra forseti. Á Íslandi er talið að um 15.000–20.000 manns þjáist af þunglyndi. Þetta er gríðarlegur fjöldi og þunglyndi eldri borgara er sérstök áskorun. Áskorunin felst m.a. í því að þetta er að hluta til falið og ógreint vandamál. Sömuleiðis er hlutfall eldri borgara með einkenni þunglyndis helmingi hærra en almennt gerist hjá öðrum aldurshópum. Hérlendis er notkun þunglyndislyfja og kvíðastillandi lyfja með því sem mest gerist í heiminum og ekki síst hjá öldruðum. Samkvæmt skýrslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þunglyndi einn erfiðasti sjúkdómur mannkyns og getur verið lífshættulegur. Þunglyndi, einmanaleiki og depurð sem honum fylgir er ekki bara samfélagsmein heldur getur þunglyndi einnig verið afar hættulegt heilsu fólks. Sjúkdómurinn er því mjög kostnaðarsamur, fyrir utan að hann skerðir lífsgæði þess sem við hann glímir. En hins vegar, herra forseti, er þunglyndi oft læknanlegt og ætíð er hægt að ráða einhverja bót á því, a.m.k. í langflestum tilvikum.

Herra forseti. Eldri borgurum hefur fjölgað mikið hérlendis og þeim mun fjölga meira á næstu árum en fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á Íslandi á næstu 25 árum. Við sjáum að einkenni þunglyndis hjá öldruðum geta verið margs konar, svo sem breytt atferli og viðhorf ásamt skertri andlegri og líkamlegri hæfni. Að sjálfsögðu getur fólk á öllum aldri fengið einkenni þunglyndis en hvernig þau koma fram hjá öldruðum getur verið ólíkt. Missir maka eftir langt hjónaband, einmanaleiki, verkefnaleysi, óvirkni, hreyfingarleysi, missir sjálfstæðis, fjárhagsáhyggjur, félagsleg einangrun og jafnvel lífsleiði og tilgangsleysi geta verið veigameiri orsakir en hjá öðrum hópum. Ég vil í því sambandi benda á að hluti eldri borgara býr við bág kjör hér á landi og hefur því kannski færri tækifæri en aðrir til að leita sér aðstoðar. Sömuleiðis hafa aðrir bent á að þessi hópur sé jafnvel tregari til að leita sér aðstoðar þegar kemur að andlegri vanlíðan en aðrir aldurshópar. Við sjáum einnig að það getur verið auðvelt að láta sér yfirsjást einkenni þunglyndis hjá öldruðum. Mörg einkenni þunglyndis geta verið álitin eðlilegur fylgifiskur öldrunar og skörun getur verið á milli líkamlegrar vanheilsu og aukaverkana lyfja. Af þeim sökum geta aldraðir jafnvel síður fengið viðeigandi meðferð við þunglyndi sínu. Dvöl á hjúkrunarheimili getur haft ýmis andleg áhrif á viðkomandi þar sem hann stendur allt í einu frammi fyrir því að búa við nýjar og aðrar aðstæður í nánu samneyti við nýtt og ókunnugt fólk.

Ég held að þetta sé brýnt mál að svo mörgu leyti. Ég er sannfærður um að mögulegar úrlausnir vegna þunglyndis eldri borgara þurfa að vera sértækar og sérsniðnar að aldurshópnum og það sama má segja um forvarnirnar. Við sjáum að tilhneigingin hér á landi gagnvart þessum hópi og öðrum hefur oft verið að beita lyfjameðferð sem að sjálfsögðu á oft rétt á sér en hins vegar þurfum við að huga að annars konar meðferð samhliða lyfjameðferð eða jafnvel í staðinn fyrir hana. Í því sambandi verið nefnt t.d. að auka félagslega ráðgjöf, auðvelda vitjanir til öldrunarlækna, geðlækna og sálfræðinga á heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis hefur aukin hreyfing verið talin skynsamleg leið til að sporna gegn þunglyndi og því er mikilvægt að fólk hafi aðstöðu til hennar og jafnvel samneyti við gæludýr á hjúkrunarheimilum hefur einnig verið nefnt sem leið til að bregðast við leiða og einmanaleika. Því, herra forseti, er ljóst að fjölmargar leiðir, bæði stórar og smáar, eru færar í baráttu okkar gegn þeim skelfilega sjúkdómi sem þunglyndi getur verið.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að þessi umræða er talsverð erlendis og í Bretlandi hefur meira að segja verið stofnað sérstakt embætti, ráðherra einmanaleikans. Af því tilefni sagði þáverandi forsætisráðherra Bretlands, með leyfi forseta:

„Einmanaleikinn fer ekki í manngreinarálit. Einmanaleikinn getur herjað á okkur öll en við getum í sameiningu unnið bug á honum.“

Herra forseti. Ég vil upplýsa að ég lagði fram sambærilega þingsályktunartillögu fyrir um 15 árum hér á þingi en þá varð tillagan ekki útrædd. Það er virkilega ánægjulegt að 15 árum seinna sé Alþingi tilbúið að hefja þessa rannsókn eins og hér er lagt til að verði gert með það að markmiði að standa fyrir markvissum aðgerðum, sömuleiðis, þannig að við getum öll sem samfélag unnið bug á þessum sjúkdómi.

Það er alveg ljóst að mínu viti, herra forseti, að þunglyndi, kvíði og einmanaleiki eiga ekki að vera eðlilegir fylgifiskar efri áranna. Það er svo mikilvægt að fólk hafi tilgang í lífinu en það er einnig mjög mikilvægt að fólk sé saman. Maður er manns gaman, eins og þar segir. Við erum félagsverur sem dýrategund og það skiptir máli að við séum í samneyti hvert við annað. Hraðinn má ekki vera slíkur í samfélaginu að við hættum að sinna hvert öðru. Hér þarf sérhver fjölskylda að líta í eigin barm þegar kemur að þeim eldri borgurum sem eru í lífi okkar og hvernig við sinnum því fólki. Eitt af því sem við eigum að gera í æ meira mæli er að brúa bilið á milli kynslóða. Ég held að yngsta kynslóðin njóti ekki síst góðs af því að vera í nánum tengslum við afa sína og ömmur, langafa og langömmur. Þetta myndi einfaldlega bæta líf allra.

Að lokum, herra forseti, er ég sannfærður um að þetta þingmál mun bæta líðan fólks og þá er ansi mikið unnið. Ég held að fá mál séu stærri en einmitt þau sem snerta sjálfa lífshamingjuna og tilgang tilverunnar.