150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það var margt rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar hér rétt áðan um þau vinnubrögð sem átt hafa sér stað um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem við hljótum öll að fagna, þ.e. tilurð frumvarpsins, tilgangi þess og markmiðum. En ég get ekki látið hjá líða að koma hingað upp einfaldlega vegna þess að ég á mjög erfitt með þau vinnubrögð sem Alþingi Íslendinga er boðið upp á. Nefndarálit er lesið upp, nú kynnt sem nefndarálit meiri hluta, og breytingartillaga sem var í nefndaráliti er kölluð til baka hér í 2. umr., og við erum á lokadögum þings fyrir jólahlé og fyrirséð að fleiri fundir verði í velferðarnefnd. Þessar breytingartillögur voru afgreiddar með hraði í nefndinni en augljóslega var það á einhvern hátt vanhugsað af meiri hlutanum að leggja þær breytingar til. Nú er búið að kalla þær til baka og einhvern tímann á næstu sólarhringum eigum við að fara að vinna þetta upp á nýtt. Ég veit að þetta hljómar illa en þetta er svona.

Frumvarpið snýst um lengingu á fæðingar- og foreldraorlofi. Það fór inn í samráðsgátt í örstutta stund. Kemur hingað inn til Alþingis þann 26. nóvember sl. og þá var algerlega morgunljóst að það fengi ekki sómasamlega þinglega meðferð. Mér finnst það alveg ömurlegt, herra forseti, að bjóða upp á að við ástundum vinnubrögð af þessu tagi. Það kallar bara á eitthvert klúður. Í dag hafa ýmsir hagsmunaaðilar haft samband við þingmenn hægri, vinstri, ýmist til að lýsa ánægju eða óánægju með þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum. Það sýnir bara að hv. velferðarnefnd hefur ekki verið gefið tækifæri til að vinna þetta mál og ég talaði um það hér í 1. umr.

Þetta er því miður ekki eina málið sem við fengum frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra þar sem hv. velferðarnefnd á bara að afgreiða hlutina í slíkum flýti. Nú dembast inn athugasemdir frá umsagnaraðilum sem segja: Af hverju fengum við ekki að koma fyrir nefndina? Af hverju fáum við ekki að koma? Ert þú ekki formaður? Af hverju fær þessi hópur ekki að koma? Af hverju erum við ekki kölluð inn til að segja skoðanir okkar á þeim breytingartillögum sem verið er að leggja til? Af hverju er núna verið að afturkalla breytingartillögurnar? Það er ekkert rökstutt af því að engin vinna hefur átt sér stað. Við erum löggjafinn og ég þreytist ekki á að tuða yfir því hér í þingsal að þessi vinnubrögð, með leyfi forseta þingsins, eru óþolandi. Forseti þingsins þarf að fara að senda skýr skilaboð til ráðherra í ríkisstjórn af því að það er út af þessu sem hér verður klúður sem á endanum kostar ríkissjóð stórfé.

Það bárust 28 umsagnir í samráðsgáttina þar sem fólk var að skiptast á skoðunum eða senda inn álit sitt varðandi skiptingu á fæðingarorlofi. Hv. velferðarnefnd gat ekkert tekið á því máli, ekki neitt. Það komu tíu umsagnir fyrir hv. velferðarnefnd á þeim stutta tíma sem gefinn var. Gestakomur hófust löngu áður en umsagnarfresti lauk og það var enginn tími til að kalla inn alla þá sem sendu inn umsögn. Þess vegna erum við í þeim sporum núna að það er tekin ákvörðun, vegna ósættis innan ríkisstjórnarinnar um skiptinguna, um að senda inn breytingartillögu — og hvar erum við núna? Ég vil bara að þingheimur átti sig á þessari stöðu því að það er óboðlegt að setja okkur í þessar aðstæður. Í staðinn fyrir að geta staðið hér og fagnað af öllu hjarta, því að við erum að lengja fæðingarorlofið, býður ríkisstjórnin okkur upp á þetta klúður. Mér finnst það alveg ótrúlega sorglegt. Það er frábært að verið sé að lengja fæðingarorlofið en það er ömurlegt hvernig hæstv. félagsmálaráðherra stendur að þessu máli.

Það verður fróðlegt að vinna þetta áfram. Ég gat ekki heyrt að hv. þingmaður og framsögumaður nefndarinnar kallaði málið inn milli 2. og 3. umr. þannig að ég geri það núna. Það getur vel verið að ég hafi misst af því en ég geri það þá núna. Málið fer til hv. velferðarnefndar sem fundar um helgina eða eftir helgi til að reyna að taka til eftir það sem hefur átt sér stað.