150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og þessar hugleiðingar sem komu skýrt fram núna, og hafa gert áður hjá hv. þingmanni, um rétt barnsins af því að ég held að við þurfum líka að horfa á það. Þetta eru sjónarmið sem maður sér vegast á í umsögnum sem bárust við málið og eru einmitt þau sjónarmið sem maður myndi gjarnan vilja fá að heyra meira af innan nefndarinnar og ræða við sérfræðinga sem koma að þessu, við fulltrúa verkalýðshreyfinga og einnig fulltrúa Geðverndarfélags Íslands sem sendi inn umsögn. Hv. þingmaður talaði um umboðsmann barna og Félag einstæðra foreldra og þá langar mig að nefna við hv. þingmann t.d. þennan hóp, geðvernd. Hvað með Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi? Hvað með Afstöðu? Hvað með hópa þar sem mögulega er fyrirséð að þessi skipting geti verið erfið og það þurfi að horfa á hagsmuni barnsins fyrst og fremst, þar sem það gæti verið einhvers konar þröskuldur þannig að réttur barnsins til fæðingarorlofs skerðist? Ég hef bent á það nokkrum sinnum að stjórnvöld taka líka ákvörðun um að skerða rétt barns til fulls fæðingarorlofs með foreldri þegar hinu foreldrinu er t.d. ekki veitt leyfi til dvalar á landinu. (Forseti hringir.) Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa hópa.