150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls og einnig þeim nefndarmönnum í hv. velferðarnefnd sem eru hér enn og hafa tekið til máls fyrir þá vinnu sem þar hefur farið fram. Það hefur augljóslega komið fram í máli hv. nefndarmanna að þessir þættir togast á, annars vegar fæðingarorlofið sem vinnumarkaðsúrræði og hins vegar fæðingarorlofið sem réttindi barna. Við erum með þessi tengsl á Íslandi. Við fjármögnum kerfið í gegnum vinnumarkaðinn með hluta af tryggingagjaldinu. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um vorum við einmitt nú við afgreiðslu fjárlaga og mála tengdra þeim að breyta hlutföllunum í tryggingagjaldinu fæðingarorlofinu í hag. Sá hluti tryggingagjaldsins sem er eyrnamerktur fæðingarorlofinu var aukinn, einmitt vegna þess að við erum annars vegar að stíga skref í að lengja fæðingarorlofið og hins vegar höfum við verið að stíga skref í þá átt að hækka tekjumörkin sem gilda í fæðingarorlofinu. Ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig í þá veru að auðvitað þurfum við að halda áfram á þeirri braut að hækka tekjumörkin því að það mun, ásamt og með því að halda áfram að skylda báða foreldra til að taka hluta, helst stóran, af fæðingarorlofinu, halda áfram að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ég tek undir það sem hv. þingmaður og hæstv. forseti þingsins kom inn á hér áðan að auðvitað eru réttindi barnanna og réttindi fjölskyldna mjög samofin, það liggur náttúrlega í hlutarins eðli. Og auðvitað hljótum við sem löggjafarsamkunda að líta svo á að þessir hagsmunir fari saman, ég tek undir það.

Ég tek einnig undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni í því sem hann kom inn á í sambandi við það hvernig við ættum að hugsa þetta, hvernig við höfum í raun verið að ná utan um það mikilvæga verkefni að koma þeim skilaboðum út í samfélagið að uppeldi barna er hlutverk okkar allra og í tilfelli hvers einstaks barns oftast hlutverk tveggja foreldra. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími Jóhanni Sigfússyni að auðvitað geta fleiri komið þar til en einungis tveir foreldrar. Það hafa komið fram hér í umræðunni, hjá hv. þingmönnum Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Andrési Inga Jónssyni og Steingrími Jóhanni Sigfússyni, vangaveltur um ýmis atriði sem er mjög mikilvægt að endurskoðunarnefndin, sem við höfum nefnt alloft hér í dag, taki á. Ég treysti því og trúi að fulltrúar þeirrar nefndar fylgist vel með þeim umræðum sem hér hafa farið fram eða kynni sér þær a.m.k. og taki tillit til þeirra. Það skiptir miklu máli.

Sveigjanleikinn í fæðingarorlofinu skiptir líka máli. Hann er annað atriði sem má gjarnan taka tillit til við endurskoðun laganna og ég tel persónulega að kaflinn um foreldraorlof í lögunum um fæðingarorlof sé líka mikilvægur. Það ættu kannski að vera næstu skref í þá veru að styrkja íslenskt samfélag sem fjölskylduvænt samfélag að taka með einhverjum hætti á þeim þáttum að foreldraorlofið sé ekki bara „á kostnað“ fjölskyldnanna heldur reynum við að leita leiða til að fá vinnumarkaðinn til að taka þátt í því. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um er hægt, allt upp að átta ára aldri barna, að fá foreldraorlof en það er ekki skylda vinnuveitenda að greiða fyrir það. Fyrir vikið er það sennilega minna nýtt úrræði en ella væri.

Umönnunarbilið er svo hitt atriðið sem mig langar í blálokin að nefna. Auðvitað þarf að taka á því. Það verður væntanlega sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að ganga í það verk og ég tek sérstaklega undir það sem kom fram áðan að þessi mál eiga að verða stórmál í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022 og þannig er hægt að klára, alla vega að þessu leyti til, þá mikilvægu hugsun sem felst í framlagningu þessa frumvarps, að tryggja að við séum að stíga skref í þá átt að bæta hag íslenskra barna og fjölskyldna þeirra. Lenging fæðingarorlofsins er gríðarlega mikilvægt skref í þá átt.