150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[13:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin frá hv. þingmanni. Það er nú svo að heildarsamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, sendu umsögn við frumvarpið og komu á fund nefndarinnar og ég gat alla vega ekki skilið þá umsögn eða orðræðu fulltrúa sambandsins á annan hátt en að þeir væru tiltölulega sáttir við frumvarpið. Þeir bentu hins vegar á, eins og hv. þingmaður, að þeim þætti tíminn knappur og það kann vel að vera að þriggja vikna umsagnarfrestur sé lítill og að einhverjum finnist það. En það er nú samt sá plagsiður sem hefur verið hafður að mestu hér í þinginu að gefa þrjár vikur til umsagna. Á hitt er að líta að þegar er knappur tími eins og hér er getur þurft að hemja sig eitthvað í því hverjir eru kallaðir á fund nefndarinnar og ég verð að segja að mér finnst þá eðlilegast að það séu þá helst kallaðir þeir sem senda umsagnir innan þess tímaramma sem er gefinn. Það er að mörgu leyti eðlilegast. Og þá til vara að þeir sem eru í forsvari fyrir heildarsamtök eða heildarhópinn sem undir er séu kallaðir til og það var gert í þessu tilviki.