150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[13:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikið umhugsunarefni hvernig svona grundvallarmistök gátu átt sér stað. Þetta ætti ekki að koma sérfróðum aðilum á óvart, þ.e. að skilja svona á milli uppgreiðsluheimildar á útlánum sjóðsins en hafa ekki slíka heimild fyrir hendi í þeim skuldabréfum sem sjóðurinn gefur út til eigin fjármögnunar. Þetta er grundvallaratriði í fjármálafræði. Þarna er búin til áhætta fyrir sjóðinn sem hefur komið í ljós að var mjög mikil og enn algjörlega ófyrirsjáanlegt hversu mikil hún getur orðið. Haldi vextir áfram að lækka og aukist enn frekar á uppgreiðsluhraða þeirra lána sem þarna eru undir getur þetta orðið verulegt tap fyrir ríkissjóð.

Hvort þarna er um að kenna óvandaðri umfjöllun Alþingis á sínum tíma fyrir utan þau mistök sem gerð voru í upphafi máls ætla ég ekki að kveða upp úr um hér en þetta er áminning fyrir okkur um að þegar ekki er vandað til verka geta afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar eins og þetta er mjög skýrt og gott dæmi um.

Gerð voru grundvallarmistök þegar þessu fyrirkomulagi var hleypt af stokkunum á sínum tíma og skattgreiðendur munu greiða reikninginn fyrir þau mistök, því miður. Undan því verður ekki komist, á þessu hvílir einfaldlega ríkisábyrgð, og viðfangsefni þessa máls er fyrst og fremst að reyna með öllum ráðum að lágmarka áhættu ríkissjóðs eins og kostur er. Þegar upp er staðið verður þetta samt reikningur sem endar hjá skattgreiðendum.