150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

neytendalán.

223. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp er varðar breytingu á neytendalögum þar sem verið er að efla neytendaverndina. Það er ágætt að geta þess í upphafi að frumvarpið kemur að sjálfsögðu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og byggir á vinnu starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem skipaður var með bréfi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þann 11. júlí 2018. Í skýrslunni sem umræddur starfshópur skilaði af sér voru lagðar til ýmsar aðgerðir og með frumvarpinu sem hæstv. ráðherra lagði fram voru lagðar til breytingar á lögum um neytendalán til að efla neytendavernd á fjármálamarkaði. Frumvarpið fól í sér hluta af tillögum starfshópsins en það var ljóst strax við 1. umr. þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu að mörgum fannst ekki nógu langt gengið til að ná þeim markmiðum sem frumvarpinu var ætlað að ná, þ.e. að auka enn frekar á neytendavernd.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd bárust sjö umsagnir frá mismunandi aðilum og á fund okkar mættu aðilar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, umboðsmanni skuldara, frá Creditinfo, Neytendasamtökunum og Fjármálaeftirlitinu. Auk þess bárust okkar nokkrar skriflegar umsagnir, m.a. frá Ecommerce 2020 en það var eini aðilinn sem er á þessum markaði sem sendi inn umsögn. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd bauð þeim að mæta fyrir nefndina í tvígang en þeir gátu ekki orð við þeirri beiðni.

Eins og áður sagði var frumvarpinu ætlað að auka neytendavernd á sviði lánastarfsemi, einkum með tilliti til starfsemi smálánafyrirtækja sem bjóða neytendum tiltölulega lágar lánsfjárhæðir til skamms tíma með háum kostnaði fyrir lántaka. Efnisákvæði frumvarpsins árétta ófrávíkjanleika laganna, skýra reglur um lagaval, kveða á um að neytanda sé óskylt að greiða heildarlántökukostnað láns ef kjör þess brjóta gegn ákvæði laga um neytendalán um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust kom fram almennur stuðningur, heilt yfir, við framgang frumvarpsins. Helst sætti gagnrýni að ekki væri nægjanlega langt gengið til að ná markmiðum frumvarpsins.

Samhliða umfjöllun um málið fjallaði nefndin um frumvarp Oddnýjar G. Harðardóttur o.fl. hv. þingmanna til laga um starfsemi smálánafyrirtækja, samanber 14. þingmál á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem frumvörpin höfðu bæði sama markmið, að reyna að koma böndum á smálán og auka neytendavernd þegar að þeim kemur. Meiri hlutinn leggur áherslu á að í kjölfar gildistöku þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar haldi stjórnvöld áfram að fylgjast með þróuninni á þessum markaði sem og þróun regluverks um málaflokkinn annars staðar á Norðurlöndum. Á meðal atriða sem komu til umræðu í nefndinni og meiri hlutinn telur rétt að sæti nánari skoðun er hvort rétt sé að skerpa á kröfum til lánveitenda um að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat og byggja ákvörðun um lánveitingu á því. Það er líka ástæða, virðulegur forseti, til taka það fram að hér erum við í rauninni að fjalla um frumvarp sem er breytingar á neytendalánum og það þýðir að undir eru allar tegundir neytendalána, hvort sem það er yfirdráttur, raðgreiðslur, netgíró eða annað þess háttar. Í lagatextanum í dag er ekki til neitt sem heitir skilgreining á smálánum eða smálánafyrirtækjum.

Nefndinni var m.a. bent á að stór hluti þess vanda sem við er að etja í tengslum við starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja lúti að innheimtuþættinum og að jafnvel væri það svo að helsta gróðavon slíkra fyrirtækja lægi í innheimtunni. Nokkuð vel er skilgreind í íslenskum lögum löggjöf um frum- og milliinnheimtu en öðru máli gegnir um löginnheimtu. Þess vegna telur meiri hlutinn afar brýnt að skýra betur reglur um starfsemi löginnheimtuaðila og eftirlit með þeirri starfsemi. Nefndin hefur verið upplýst um að sú vinna sé í gangi í dómsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Hvetur meiri hlutinn til að vinnunni verði hraðað eins og kostur er og að frumvarp með það að markmiði að bæta lagagrundvöll innheimtumála að þessu leyti verði lagt fram á vorþingi.

Nefndin leggur líka til ákveðnar breytingartillögur. Ein af þeim lýtur að svokallaðri skráningarskyldu en á meðal þeirra ábendinga sem nefndinni bárust við umfjöllun málsins var að taka bæri upp leyfisskyldu eða alla vega skráningarskyldu fyrir veitendur lána sem skilgreina mætti sem smálán. Nefndinni var m.a. bent á að víðast hvar í nágrannaríkjum Íslands væri slík skylda fyrir hendi og að á Norðurlöndum væri tilhneigingin sú að taka upp leyfisskyldu í stað skráningarskyldu.

Þess ber kannski að geta, virðulegur forseti, að ein af röksemdafærslunum hæstv. ráðherra þegar hún lagði fram frumvarpið var að slík skylda væri of íþyngjandi fyrir þau fyrirtæki sem eru á markaði og það verður auðvitað alltaf að horfa til þess að á þessum markaði á sér stað gríðarleg nýsköpun. Við erum með töluvert af sprotafyrirtækjum sem eru að feta sig inn á markað greiðslumiðlanna og þar af leiðandi líka inn á markað neytendalána. En meiri hlutinn fellst á þær ábendingar sem fram hafa komið við umfjöllun málsins og leggur til að tekin verði upp skráningarskylda hjá Neytendastofu á grundvelli laga um neytendalán fyrir þau fyrirtæki sem veita neytendalán og ekki eru jafnframt fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Samhliða verði lánveitendum sem svo háttar til um bætt við gildissvið 1. mgr. 2. gr. peningaþvættislaga og látin sæta eftirliti Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra laga, samanber 1. mgr. 38. gr. Til að forðast tvöfalda skráningarskyldu leggur meiri hlutinn til að Neytendastofu verði veitt heimild til að deila upplýsingum um skráða aðila með Fjármálaeftirlitinu.

Við teljum að með því að fella neytendalánastarfsemi undir lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eflist opinbert aðhald og eftirlit með starfseminni til muna auk þess sem eftirlit á grundvelli þeirra laga er annars eðlis en við á um eftirlit Neytendastofu á grundvelli laga um neytendalán. Meiri hlutinn vonast til að með þessu móti öðlist yfirvöld breiðari yfirsýn yfir málaflokkinn sem greiði fyrir viðeigandi viðbrögðum þegar upp koma mál sem eru erfið viðureignar.

Nefndinni er kunnugt um að heildarendurskoðun á löggjöf um peningaþvætti og tengd mál sé á næsta leiti hjá dómsmálaráðuneytinu. Því kom til vangaveltna um hvort ástæða væri til að bíða eftir því. En niðurstaðan er að meiri hlutanum þykir ekki ástæða til að bíða með þessa breytingu þar til sú endurskoðun fer fram. Hvetur meiri hlutinn aftur á móti til að smálánastarfsemi verði tekin til sérstakrar skoðunar við þá endurskoðun og að m.a. verði metið hvort reynslan af upptöku þeirrar skráningar- og eftirlitsskyldu sem meiri hlutinn leggur til nú mæli með að fyrirkomulagið sæti breytingum.

Þó skal tekið fram að sú breytingartillaga sem við leggjum hér til varðandi skráningarskyldu og þá skráningu líka hjá Fjármálaeftirlitinu að þar leggur meiri hlutinn til að þær breytingar öðlist gildi 1. mars 2002 til að gefa ákveðið svigrúm til þeirra aðila sem á markaðnum starfa.

Eitt af því sem var töluvert rætt í nefndinni er 26. gr. laga um neytendalán þar sem mælt er fyrir um að árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) á neytendalánum megi ekki vera meira en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Það er ástæða til að geta þess, virðulegi forseti, að í skýrslunni sem starfshópurinn vann, sem ég nefndi í upphafi ræðunnar, var ekki fjallað sérstaklega um þennan þátt og reynslan á Norðurlöndunum virðist vera mjög á þá leið að þau fyrirtæki sem reyna að komast fram hjá lögunum finna ítrekað aðrar leiðir til að bæta við kostnaði fram hjá þessari árlegu hlutfallstölu kostnaðar. Engu að síður er það öllum ljóst að 50% að viðbættum stýrivöxtum er auðvitað gríðarlega hátt vaxtastig og því leggur meiri hlutinn til að breyting verði gerð á frumvarpinu og það lækkað í 35% auk stýrivaxta.

Þá er ástæða til að benda líka á það að með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að það nýmæli bætist við ákvæðið að neytendum sé óskylt að greiða heildarlántökukostnað láns þegar lánveitandi brýtur gegn ákvæðinu. Það á að vera alveg skýrt að það að brjóta gegn þessu ákvæði felur í sér þá stöðu að lántaki þarf ekki að greiða kostnaðinn. Það þýðir að ef heildarlántökukostnaður fer fram úr hámarki ÁHK samkvæmt lögum ber neytanda einungis að greiða til baka höfuðstól láns og eignast endurgreiðslukröfu á hendur lánveitanda hafi hann greitt umfram höfuðstól. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði og okkur í nefndinni er ekki kunnugt um að slík ákvæði séu í lögum annarra Norðurlandanna. Farið er ágætlega yfir það í nefndaráliti hver þessi vaxtaprósenta sé í hinum löndunum. Hún hefur almennt verið að lækka. Finnland hefur verið með 20%, Svíþjóð 40% og í Danmörku er ekkert þak og ekki heldur í Noregi, að mér skilst, en Danir eru að tala um að setja upp ákveðið þak. Þá skal líka geta þess að reglurnar geta verið misjafnar, til að mynda í Finnlandi þar sem þetta hlutfall er lægst af nágrannalöndunum okkar, þ.e. 20% en engu að síður er um 180 evru fastur kostnaður sem þýðir auðvitað að prósentan getur verið mun hærri þegar um lágar fjárhæðir er að ræða.

Þá fjölluðum við líka um auðkenniskröfuna. Okkur í nefndinni hefur verið bent á að smálánafyrirtæki geri litlar sem engar kröfur um auðkenningu þegar sótt er um smálán á vefsíðu fyrirtækjanna. Þannig sé ekki girt fyrir að lán séu tekin í nafni annars en raunverulegs lántaka og dæmi þekkist um slík. Til að sporna við þessu leggur meiri hlutinn til að sett verði skilyrði um auðkenningu til að lánasamningar teljist skuldbindandi, annaðhvort með eiginhandarundirskrift eða fullgildri, rafrænni undirskrift í skilningi laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, sé lánasamningurinn gerður í fjarsölu. Þá er ástæða til að benda á að það er með þetta eins og með skráningarskylduna að meiri hlutinn leggur til að þessar breytingar öðlist gildi 1. mars 2020 og gefst þá eitthvert svigrúm fyrir aðila á markaði til að bregðast við þessari auknu kvöð.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem er að hann telur frumvarpið ásamt breytingartillögum meiri hlutans til bóta en að ganga hefði mátt lengra til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Undir þetta nefndarálit skrifa, auk mín, hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólafur Ísleifsson, með fyrrgreindum fyrirvara, Brynjar Níelsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.