150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um 300.000 kr. lágmarksframfærslu. Það er svolítið skrýtið að hv. framsögumaður meiri hlutans bendi á skattadótið í því sambandi ef við horfum á hvernig skattlagning var 1988 þegar þessir einstaklingar voru skattlausir. Þá var lífeyrir frá Tryggingastofnun skattlaus og meira að segja var afgangur upp í lífeyrissjóð. Það segir okkur þá sögu að persónuafslátturinn hefur aldrei fylgt. Það eru stórhækkaðir skattar og ég mun taka það fyrir á eftir þegar ég flyt ræðuna mína.

Síðan eru 65 aurar á móti krónu sem 4 milljarðar voru settir í. Hvernig skilaði það sér? Er jafnræði að setja það út og svo skerðir þetta sérstakar húsaleigubætur og alls konar bætur þannig að fólk kemur með núll út úr því? Hvaða jafnræði er það? Er eitthvert jafnræði í því að atvinnulausir hafi 30.000 kr. hærri framfærslu en öryrkjar? Er eitthvert jafnræði í því að þeir fái 80.000 kr. jólabónus meðan hinir fá 44.000 kr.? Þið talið um jafnræði en þess á milli er það hunsað algjörlega.

Mér finnst þessi málflutningur mjög undarlegur. Þetta er þingsályktunartillaga sem fer til ráðherra og ef það þarf að breyta getur ráðherra breytt skattumhverfinu og hverju sem er. Það er ekki eins og þetta sé frumvarp sem verði að lögum heldur erum við að benda á þessa leið vegna þess að það er alveg ömurlegt til þess að vita hvernig farið er með þennan hóp. Hann hefur setið eftir. Hann hefur ekki fengið hækkanir. Skattar á hann eru stórhækkaðir og skerðingar og allt saman. Það verður að gera eitthvað og við erum að reyna það. Þetta myndi einfalda kerfið alveg svakalega. Hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér um að kerfið væri mjög einfalt ef það væri svona.