150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson á þakkir skildar fyrir þá baráttu sem hann hefur haldið uppi í þingsal fyrir öryrkja og þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Auðvitað veit hv. þingmaður að í grundvallaratriðum erum við sammála um að skerðingar á lífeyri og í almannatryggingakerfinu mega ekki verða til þess að festa fólk í fátæktargildru. Við hv. þingmaður erum sammála um það. Þegar við erum á hinn bóginn með takmarkaða fjármuni verður að velja að ráðstafa þeim þannig að þeir komi til þeirra fyrst og síðast sem mest þurfa á því að halda. Það er m.a. gert með almannatryggingakerfinu eins og hv. þingmaður kom inn á og ég er ekki sannfærður um að einföldun eins og þessi væri besta nýtingin á fjármunum ríkisins.

Ef við ákvæðum til að mynda að bætur hjá einhverjum sem er með 500.000 kr. úr almannatryggingum yrðu skattfrjálsar upp að 300.000 kr. væri ríkið í raun að neita sér um ákveðna fjármuni sem það gæti notað til að bæta hag þeirra sem eru allra verst settir. Í kerfi þar sem við eigum ekki endalausa fjármuni verðum við að reyna að beina þeim þangað sem þörfin er brýnust. Á þeim grundvelli sé ég ekki hvernig hægt er að ganga að tillögu (Forseti hringir.) hv. flutningsmanns.