150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga og ég fer hérna fyrir minni hluta velferðarnefndar. Þetta er þingsályktunartillaga Flokks fólksins, okkar hv. þm. Ingu Sæland. Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300.000 kr. lágmarksframfærslu á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt hlynntir efni tillögunnar og tóku undir að þörf væri á að tryggja viðunandi lágmarksframfærslu örorku- og ellilífeyrisþega og að hún tæki mið af launaþróun. Í því samhengi var nefndinni m.a. bent á að atvinnuleysisbætur væru orðnar umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga. Þykir það skjóta skökku við enda atvinnuleysisbætur hugsaðar sem skammtímaúrræði en lífeyrir almannatrygginga langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem alla jafna eiga ekki nokkurn kost á að bæta hag sinn, samanber umsögn Öryrkjabandalagsins frá 28. október 2019 við fjárlög fyrir árið 2020.

Minni hlutinn tekur undir framangreint, telur kjör örorkulífeyrisþega ekki ná að fylgja launaþróun sem hafi þar af leiðandi leitt af sér ákveðna kjaragliðnun. Þá bendir minni hlutinn á að lífeyrisþegar geta ekki nýtt sér sömu úrræði og launþegar eins og verkfallsrétt. Að mati minni hluta er mikilvægt að tryggja lífeyrisþegum lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Þá er það mat minni hlutans að tillaga þessi feli í sér nauðsynlega kjarabót í þeim efnum og áréttar mikilvægi þess að frumvarp þess efnis verði lagt fram fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.

Ef við hugsum um hversu rökrétt það væri að vera með 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust verðum við að horfa á það að, eins og ég benti á í síðustu ræðu minni, að árið 1988, við upphaf staðgreiðslunnar, var lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skattlaus og fólk átti allt að 30% afgang upp í lífeyrissjóðsgreiðslur. Í dag er staðan þannig að örorkulífeyrisþegar borga frá 36.000 kr. og alveg upp undir 67.000 kr. í skatt. Það eru þeir sem eru með hæstu örorkubæturnar. Þetta segir mér að hrein og klár skattahækkun hefur átt sér stað á síðustu áratugum. Eiginlega má líka horfa á þetta frá hinu sjónarhorninu, að ef kjaragliðnunin sem hefur ekki skilað sér hefði skilað sér liti þetta mun betur út en þá væru skattatölurnar sennilega enn hærri. Persónuafslátturinn fylgdi aldrei með, hann var skilinn eftir. Þar af leiðandi er hann kolrangur í dag. Ef rétt væri gefið væri talan sennilega í kringum 300.000 kr. sem væru skattlausar. Það verður að segjast eins og er að þetta sýnir svart á hvítu hversu stórlega skattheimta hefur aukist á þá sem síst skyldi.

Við umfjöllun nefndarinnar fékk hún send tvö erindi, annað frá Öryrkjabandalaginu þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„ÖBÍ fagnar fram kominni tillögu og tekur undir með flutningsmönnum hennar að lífeyrisþegar hafa setið eftir við kjarabætur síðustu ára og nauðsynlegt er að bæta verulega í við þennan hóp. Eins og ÖBÍ hefur bent á í umsögnum um fjárlagafrumvörp síðustu ára hefur sá hópur sem nýtur aðeins bóta frá Tryggingastofnun dregist verulega aftur úr öðrum hópum í samfélaginu. Er svo komið í dag að lífeyrir einstaklings sem ekki býr einn og nýtur því ekki heimilisuppbótar er með lægri greiðslur en nemur grunnatvinnuleysisbótum en margir þurfa að lifa á lífeyri árum saman eða jafnvel alla ævi á meðan atvinnuleysisbætur eru skammtímaúrræði.

ÖBÍ hvetur þingmenn alla sem einn að sameinast um þessa tillögu þannig að fjármunum verði forgangsraðað til að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi framfærslu.“

Þarna fer ekkert á milli mála að Öryrkjabandalagið tekur heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og bendir líka á að við erum með stórfurðulegt kerfi á sama tíma og sagt er við okkur að hér sé verið að brjóta einhverjar jafnræðisreglur af því að atvinnulausir og námsmenn fylgi ekki með. Atvinnuleysi er tímabundið, enginn reiknar með að neinn verði atvinnulaus alla sína ævi. Ég ætla að vona að ekki sé innbyggt í einhverja að þeir haldi að það sé þannig. Ég vona líka að það sé ekki innbyggt í okkur að einhverjir verði á námslánum alla ævi. Það gengur ekki upp, það segir sig sjálft. Hins vegar er alveg á hreinu að stór hópur öryrkja verður á örorkubótum alla sína ævi og hefur enga vinnugetu. Þetta er hópurinn sem við erum að tala um. Það er ekki hægt að segja að þetta sé bara þingsályktunartillaga sem geti farið til ráðherra sem geti tekið við henni og séð til þess að hlutirnir séu í lagi.

Í hinni umsögninni sem kemur frá Þroskahjálp segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá þingsályktunartillöguna senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi varðandi hana.

Sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru tímabundið ástand á meðan örorkuþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.

Örorkuþegar hafa ítrekað setið eftir á síðustu árum. Sú hækkun sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga vegna ársins 2020 er langt undir hækkun lágmarkslauna. Því er óhjákvæmilegt að minna ríkisstjórnina og Alþingi á 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem hljóðar svo:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp stuðningi við tillöguna og hvetja velferðarnefnd að beita sér fyrir því að hún verði samþykkt.“

Í umsögn meiri hlutans kemur fram að tillagan sé ekki fullfjármögnuð, hún sé dýr og að eiginlega vanti fjármögnun. En horfum bara á söguna, ég þarf ekki nema að fletta upp í ræðu sem ég hélt hér fyrir stuttu í sambandi við Íbúðalánasjóð. Það er verið að skipta upp Mannvirkjastofnun og Íbúðalánasjóði og setja lánasafn Íbúðalánasjóðs sérstaklega í umsjón fjármálaráðherra. Um hvað erum við að tala þar? Mistök. Einhver gerði einhvers staðar mistök sem ég held að kosti okkur að lágmarki 140 milljarða. Þau geta farið vel yfir 200 milljarða. Enginn er að tala um það, enginn að lemja hausnum við steininn út af því. Hvar voru allir útreikningarnir á þeim tíma? Ef séð yrði til þess að svona mistök ættu sér ekki stað sýnist mér vera nóg til af fjármagni. Ef hægt er að gera svona mistök og yppta öxlum yfir þeim, 140–200 milljörðum, sé ég ekki að neinn hængur ætti að vera á því hreinlega að fjármagna þessa tillögu. Þessir fjármunir myndu duga í nokkur ár til að borga kostnaðinn af breytingum á almannatryggingakerfinu, en þetta er ekki kostnaður. Við megum ekki heldur horfa á þetta alltaf sem kostnað, að kalla það alltaf kostnað ef verið er að reyna að ná fólki úr fátækt og koma í veg fyrir að börn séu í fátækt.

Ef hins vegar ríkisforstjórar eða þingmenn þurfa að fá ofsalega há laun talar enginn um kostnað. (Gripið fram í.) Það þykir bara mjög sanngjarnt og allt í lagi, það sé bara ósköp eðlilega rétt að hækka alla upp úr öllu valdi, tvöfalda launin hjá Landsvirkjun, ekkert mál, bara sanngjarnt vegna þess að forstjórinn ber svo mikla ábyrgð. En hvar er ábyrgðin? Ber ekki hver einasta ríkisstjórn ábyrgð á því ár eftir ár að sjá til þess að öryrkjar fái hvorki kjaragliðnunina, skattar stórhækkaðir hjá þeim — og hver ber ábyrgð á skerðingunum?

Við skulum tala um skerðingarnar. Mitt fyrsta verk þegar ég kom á þing var að sjá til þess að hætt væri að skatta og skerða styrki til lyfja og alls konar hjálpartækja sem fólk þurfti nauðsynlega á að halda. Það var samþykkt vegna þess að fólk áttaði sig allt í einu á þeirri staðreynd að það var verið að rétta fólki 10.000-kall með annarri hendinni en jafnvel taka 15.000 með hinni. Hvers lags ofbeldi er að það skuli vera hægt að búa til kerfi sem segir við fólk: Heyrðu, við ætlum að hjálpa þér, við ætlum að rétta þér 10.000-kall til að auðvelda þér lífið svo þú getir keypt þér lyf eða hvað sem þú þarft og þegar viðkomandi tekur við því er ári seinna tekinn af honum 15.000-kall? Hvers lags hjálp er það? Ég segi að þetta sé fjárhagslegt ofbeldi og að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Þetta er svo mikið ofbeldi. Að hugsa sér að geta ár eftir ár gert þetta við veikt fólk sem getur ekki varið sig er alveg stórfurðulegt og okkur á hinu háa Alþingi til háborinnar skammar. Svo segja menn: Heyrðu, við getum ekki gert þetta vegna jafnræðisreglunnar, við erum að brjóta jafnræðisregluna. Þá verð ég kjaftstopp, ég verð orðlaus vegna þess að það segir sig sjálft að þetta stenst ekki. Ég vona heitt og innilega að þeir fari að sjá meira en þessa ljóstíru sem þeir hafa séð í sambandi við 10.000-kallinn sem verður skatta- og skerðingarlaus, þeir fái bara ljóskastara á sig og sjái að það besta sem þeir geta gert er að samþykkja þetta, 300.000 skatta- og skerðingarlaust, og þá förum við bara í að einfalda kerfið. Þá eru skerðingarnar farnar og fólk getur farið að lifa mannsæmandi lífi.

Því miður er ekki útlit fyrir það, við erum enn með þúsundir barna í fátækt, enn lifa þúsundir einstaklinga undir fátæktarmörkum og við erum með stóran hóp í sárafátækt. Það virðist vera eitthvert lögmál í því, einhver tregða, og ég vona að menn hætti að hæla sér af því að setja 4 milljarða inn í krónu á móti krónu skerðingu sem skilar sér ekki eitt eða neitt nema í skerðingum og fari að gera það sem þeir gerðu núna og eru búnir að átta sig á, eins og með 10.000-kallinn, að setja hann inn skatta- og skerðingarlaust, og setja nú inn skatta- og skerðingarlaust 300.000-kall, skatta- og skerðingarlausan jólabónus. Menn verða að hætta að mismuna. Ef einhver fær 80.000 kr. jólabónus eiga allir að fá 80.000 kr. jólabónus. Ekki mismuna fólki. Ef alþingismenn hafa rosalega þörf fyrir 180.000 kr. jólabónus þurfa allir að hafa 180.000 kr. jólabónus. Við eigum að hætta þessu ójafnræði. Hvar er jafnræðið? Það væri gaman að heyra í stjórnarliðum um hvers konar jafnræði er í því að við fáum 180.000-kall, (Gripið fram í.) atvinnulausir 80.000-kall, þau sem eru með langveik börn 60.000-kall og öryrkjar 44.000-kall. Hver fann út þessa jafnræðisreglu? Ég vona að hann komi hingað og skýri út fyrir mér hvernig hann fann hana út.