150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:12]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta góða mál. 300.000 kr. lágmarksframfærsla er ekki mikið. Stór hluti örorkulífeyrisþega á börn þannig að samþykkt þessarar tillögu myndi kannski létta örlítið undir með þeim. Hæstv. félagsmálaráðherra segir að sér sé annt um að uppræta fátækt barna og þessi þingsályktunartillaga væri gott skref í átt að því markmiði en ef marka má nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar er það skref sem ekki má taka og ástæðan er „af því bara“. Í alvörunni, forseti, í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar er að finna skammarlegar afsakanir. Þar er hent saman aumum afsökunum fyrir því að gera ekki neitt. Ein þeirra er sú að þingsályktunartillögunni fylgi ekkert kostnaðarmat. Þetta er bara þingsályktunartillaga, ekki lagafrumvarp, forseti. Ef þessi tillaga yrði samþykkt þyrfti félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp og þar á kostnaðarmatið heima, ekki hér. Jafnframt segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillagan tekur einungis til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega en ekki annarra hópa eins og atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þannig eru miklar efasemdir um að umrædd tillaga standist jafnræðisregluna.“

Að halda því fram að efni þessarar tillögu brjóti á einhvern máta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er í besta falli útúrsnúningur. Nefndarálitið rökstyður auðvitað ekkert hvernig þetta brot lýsir sér enda er það ekki hægt. Það er ekki brot á jafnræðisreglu að hjálpa bágstöddum. Þetta er algjör afbökun á jafnræðisreglunni og því sem hún stendur fyrir. Ef við viljum tala um brot á jafnræðisreglunni er það að halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum svo árum og áratugum skiptir líklega skýrasta dæmið um mismunun. Að tryggja þeim ekki lágmarksframfærslu gerir það að verkum að við meinum þeim þátttöku í samfélaginu og takmörkum getu þeirra til að sækja sér nauðsynlega þjónustu og taka þátt yfir höfuð. Það er ekki mismunun að bæta hag fólks sem hefur búið við mismunun og ójöfn tækifæri um langt skeið, jafnvel þótt aðrir hópar samfélagsins búi einnig við slíka mismunun í boði stjórnvalda.

Hér er öllu snúið á haus, forseti. Ef vilji meiri hluta velferðarnefndar hefði staðið til að auka velferð öryrkja, eldri borgara og annarra bágstaddra en fundið á því annmarka vegna jafnræðisreglunnar lægi fyrir breytingartillaga um að láta 300.000 kr. lágmarksframfærslu einnig ná til atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi og vinnandi fólks. En auðvitað er slíkt ekki að finna hér því að við vitum öll að þetta er afsökun meiri hlutans fyrir því að hleypa ekki í gegn góðum málum sem koma frá einhverjum öðrum en honum sjálfum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)