150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[18:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um frumvarp um staðfestingu ríkisreiknings í annað sinn í samræmi við lög um opinber fjármál í stað lokafjárlaga áður. Mér finnst mikilvægt að draga hér fram í fyrsta lagi að frumvarpið er mun einfaldara en þegar við samþykktum fyrr á þessu ári frumvarp um ríkisreikning fyrir árið 2017 sem innihélt stofnefnahagsreikning. Nú felst frumvarpið eingöngu í því að vísa til útgefins reiknings í heild sinni og óska eftir því að reikningurinn sé staðfestur af Alþingi. Hér er hvorki vísað til færslna sem eru tengdar stofnefnahagsreikningi né leitað heimildar Alþingis fyrir flutningi heimilda eða umframgjalda á milli ára.

Í öðru lagi áritar nú ríkisendurskoðandi reikninginn án fyrirvara og með áliti, m.a. um að reikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs í árslok 2018, afkomu ársins og breytingu á handbæru fé. Auk þess er auðvitað jákvætt og mikilvægt að koma því að að jákvæð rekstrarafkoma um 84 milljarða og styrkari eiginfjárstaða ríkissjóðs gefur færi á öflugri vegferð á móti hagsveiflunni án þess að víkja frá grunngildum ríkisfjármála um sjálfbærni og varfærni.