150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[19:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér leggjum við fram og samþykkjum væntanlega sjöundu framkvæmdaáætlun íslenskrar ríkisstjórnar í jafnréttismálum. Hún felur í sér 24 verkefni en er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Mig langar aðeins að drepa á það sem við tókum helst fyrir í nefndinni af því að það voru nokkuð mörg atriði, t.d. mikilvægi þess í ljósi þess að við höfum samþykkt lög um kynrænt sjálfræði að þessari áætlun er ætlað að taka til fólks af öllum kynjum þar sem við á og sérstaklega líka til viðkvæmra hópa, til að mynda fatlaðs fólks og fólks af erlendum uppruna. Það eru líka stefnumarkandi landsáætlun um framfylgd Istanbúl-samningsins, ítarlegar rannsóknir á jafnrétti innan lögreglunnar og hvernig bæta megi hlut kvenna í stéttinni. Það er tekist á við það sem við höfum horft upp á í íþróttum til að reyna að gera betur og það er lagt til að ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera, sem reyndar átti að vera komin til framkvæmda, en hér er lagt til að sérstökum samráðshópi verði falið það verkefni.

Það er mjög margt gott fram undan (Forseti hringir.) í þessari vinnu um jafnrétti kynjanna.