150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[19:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það mál sem við greiðum atkvæði um er til bóta og við í Miðflokknum styðjum þá vegferð sem farið er í hvað það varðar að sameina þessar stofnanir en teljum að það hefði verið skynsamlegt að ganga skrefinu lengra og ná skipulagsmálunum undir þennan hatt strax í fyrstu atrennu. Þar sem það skref var ekki stigið núna leggjum við áherslu á að þess sé gætt í hvívetna að ekki verði stigin þau skref núna með þessari sameiningu að þrengja að mögulegri sameiningu skipulagsmálanna í næsta skrefi, hvort sem það verður fljótt eða á næsta kjörtímabili, hvernig sem verða vill. Við teljum, eins og víða hefur komið fram, að málaflokkurinn í heild ætti frekar heima undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu en það er síðari tíma umræða.

Eins og ég segi styðjum við þetta mál þó að eitt og annað hefði mátt betur fara og ég tek undir þá gagnrýni sem hefur oft komið fram í kvöld, að málið hefði mátt koma fyrr fram.