150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum í 3. umr. um staðfestingu á ríkisreikningi og ég vil bara koma upp í tilefni af orðum kollega minna í hv. fjárlaganefnd. Það er sannarlega rétt að endurskoðandi fjallar lögum samkvæmt um ríkisreikning, í þessu tilviki ríkisendurskoðandi. Það frumvarp sem við erum að fjalla um er einfalt í sjálfu sér og hér er í raun og veru bara vísað til þess að þingið staðfesti ríkisreikninginn eins og hann liggur fyrir. Nú hefur ríkisendurskoðandi klárað sína yfirferð og gefið út sitt álit. Hann áritar án fyrirvara.

Það er sannarlega rétt að að endurskoðunarskýrsla fylgir og segja má að hún standi í sjálfu sér fyrir sínu óháð sjálfum ríkisreikningnum. Það er kannski lykilatriðið í þessu. Fjárlaganefnd hefur í gegnum tíðina farið í sjálfstæða umfjöllun um endurskoðunarskýrsluna og fjallað um þær ábendingar ríkisendurskoðanda sem þar koma fram um ríkisfjármálin og reikningsskilin í heild sinni hjá ríkisaðilum. Við eigum auðvitað eftir að fjalla frekar um það í nefndinni hvort, hvernig og með hvaða hætti við tökum sjálfa endurskoðunarskýrsluna fyrir en segja má að slík endurskoðunarskýrsla sé ígildi ítarlegs endurskoðunarbréfs. Það er aðallega að finna í 16. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og 59. gr. laga um opinber fjármál þar sem segir að ríkisendurskoðandi sé endurskoðandi ríkisreiknings og ársreikninga ríkisaðila. Þessi endurskoðunarskýrsla er ítarleg og í henni felast gagnlegar ábendingar um ríkisfjármálin í heild sinni.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en vildi útskýra þetta.