150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[10:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að segja örfá orð um þetta ágæta mál sem ég styð heils hugar. Í andsvari við 2. umr. þessa máls vakti ég athygli á því að eins gott og þetta mál er er stjórnin að fara aftur á bak að einu leyti þegar kemur að þessum geira. Það er niðurskurður á næsta ári til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, í fjárlögum næsta árs er stór og mikill niðurskurður til þessara liða, u.þ.b. 30%. Mér finnst það sérkennileg skilaboð frá ríkisstjórnarflokkunum til sjónvarps- og kvikmyndageirans að skera niður um 30% af endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar þegar við ættum að fara í hina áttina. Það úrræði að endurgreiða hluta kostnaðar kvikmynda- og sjónvarpsgeirans er gott fyrirkomulag og það frumvarp sem við erum að tala um hér er einmitt liður í því að láta það fyrirkomulag ná til Grænlands og Færeyja. Það er jákvætt en þess vegna skil ég ekki af hverju sömu flokkar eru á sama tíma að skera niður þegar kemur að heildarfjárhæð vegna endurgreiðslunnar.

Herra forseti. Hér á landi starfa fjölmörg fyrirtæki í kvikmynda-, myndbanda- og sjónvarpsmyndagerð og það er heilmikil gróska á þeim markaði. Ég hef mikla trú á sjónvarps- og kvikmyndageiranum. Þetta er geiri sem beinlínis býr til peninga vegna aukinna umsvifa sem kallar síðan á auknar skatttekjur sem skila sér í kassann. Við höfum fengið fjölmörg erlend verkefni, hvort sem það eru Star Wars, Interstellar, Game of Thrones, Nova, Oblivion eða Secret Life of Walter Mitty o.s.frv. sem hafa beinlínis komið til Íslands vegna endurgreiðslufyrirkomulagsins. Sömuleiðis hefur þetta þau jákvæðu áhrif að fagþekkingin innan geirans eykst við að starfa við, fyrir og með erlendum sérfræðingum. Samhliða þessari miklu grósku í sjónvarps- og kvikmyndageiranum sjáum við að íslensk sjónvarpsmynda- og kvikmyndagerð nýtur í æ meira mæli alþjóðlegrar viðurkenningar, hvort sem litið er til verðlaunahátíða eða að þær eru einfaldlega keyptar. Þetta er geiri sem ég vil að við í þessum sal veðjum einfaldlega á. Þetta er stór, skemmtileg og spennandi atvinnugrein. Þessar tölur sem ég er með hér eru fimm ára gamlar en við sjáum að velta í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði er svipuð og heildarvelta mjólkuriðnaðarins í landinu. Hugsið ykkur, veltan í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði er svipuð og heildarvelta kjötiðnaðarins í landinu. Við erum ekki feimin í þessum sal við að styrkja myndarlega kjötiðnaðinn eða mjólkuriðnaðinn í meira mæli. Að mínu mati ættum við að styrkja í meira mæli sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn sem byggist á hugviti og öðru slíku. Ársverkin í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinum eru á annað þúsund talsins þannig að ársverkin í framleiðslu og dreifingu kvikmynda- og sjónvarpsefnis og útsendingar eru á við a.m.k. þrjú stóriðjuverkefni svo ég setji þetta í samhengi sem margir hér hafa áhuga á. Þau ársverk sem verða til í þessum geira eru heilmikil stóriðja þegar kemur að hagkerfinu. Við sjáum sömuleiðis framlög ríkisins til greinarinnar og þá tek ég með framlög til Ríkisútvarpsins, kostnað vegna endurgreiðslunnar sem ríkisstjórnin er að skera niður og Kvikmyndasjóðinn — ef við tökum þessi framlög ríkisins með RÚV, sem er stór biti, eru þetta helmingi lægri tölur en þær skatttekjur sem greinin sjálf býr til og renna til okkar í þessum sal. Hver króna frá ríkinu skilar sér tvöfalt til baka. Hugsið ykkur, hver króna sem við setjum í sjónvarps- og kvikmyndageirann skilar sér tvöfalt til baka til okkar. Ég vek aftur athygli á að ég er með RÚV inni í þessum tölum. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en mig langaði bara að koma þessu að. Það eru aðrar leiðir sem við ættum að huga að, ekki bara með því að auka endurgreiðsluna og ekki draga úr henni eins og ríkisstjórnin er að gera. Við ættum að setja á fót sérstakan sjónvarpssjóð og Samfylkingin hefur beinlínis lagt það til í meðförum fjárlaga að eyrnamerkja sjónvarpsmyndagerðinni pening. Við erum með Kvikmyndasjóðinn og svo höfum við vísi að sjónvarpssjóði. Við ættum að búa til sérstakan og myndarlegan sjónvarpssjóð, alveg eins og við höfum Kvikmyndasjóð, sem einblíni á sjónvarpsgerð enda sér maður að mikið er að gerast í sjónvarpsmyndagerð, ekki bara kvikmyndagerð. Við ættum að huga að því að styrkja fyrirtæki til talsetningar og textunar. Ég held að það sé mikilvægt að skattyfirvöld hugi að því hvernig skattskyldu erlendra efnisveitna er háttað hér á landi. Við sjáum að íslensku fyrirtækin eru í mikilli samkeppni, hvort sem það er Netflix, HBO, Hulu eða hvað þetta heitir allt saman þannig að við þurfum að tryggja jafnræði á markaðnum. Þetta er nokkuð sem skattyfirvöld ættu að huga að. Að sjálfsögðu viljum við að að menn keppi á jöfnum grundvelli, herra forseti.

Það eru fjölmargar stórar og smáar aðgerðir sem við getum einhent okkur í. Aðalatriðið er að við viðurkennum sjónvarps- og kvikmyndageirann og áttum okkur á því að hann býr til peninga. Hann býr líka til menningu, hann eykur lífsgæði okkar, gerir skemmtilegra að búa á þessu skeri sem við búum á. Þetta er „win-win“ ef ég má sletta, herra forseti, það græða allir á auknum áhuga þessa salar á þessum geira. Þess vegna fagna ég sérstaklega því frumvarpi sem við erum að tala hér um. Við eigum í miklu meira mæli að tala um sjónvarps- og kvikmyndageirann og ræða þær leiðir sem við getum farið til að hlúa miklu betur að þessum geira. Því meira sem ég hugsa um þetta, því rökréttara er að við séum svolítið myndarleg í stuðningi okkar við þessar atvinnugreinar.