150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um matvæli.

318. mál
[11:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langaði aðeins að koma hingað upp í sambandi við þetta mál um breytingu á lögum til einföldunar regluverks, mál nr. 318. Margt er gott í þessu frumvarpi. Við í minni hlutanum, þ.e. sá sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, bendum á það í nefndaráliti atvinnuveganefndar til 2. umr. að í sambandi við að sameina þessa sjóði, AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi og Framleiðnisjóð landbúnaðarins, hafi nefndinni verið bent á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins falli ekki undir skilgreint hlutverk Matvælasjóðs samkvæmt frumvarpinu og var jafnframt bent á að AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi hefði vægi langt umfram þá fjármuni sem hafa verið lagðir í hann. Einnig komu fram þau sjónarmið að Matvælasjóður yrði samkeppnissjóður líkt og aðrir sjóðir þar sem rannsóknir verði metnar á ýmsum forsendum, m.a. nýnæmi þeirra.

Í ræðunni sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson flutti á undan mér og mælti fyrir breytingum tæknilegs eðlis minntist þingmaðurinn líka á að það væri búið að falla frá sameiningu þessara sjóða. Eins og við bentum á í nefndaráliti okkar lítum við þannig á að stundum sé farið eftir ábendingum minni hlutans og gleðjumst við þess vegna yfir því. Svo kom fram hjá gestum og eins í umsögnum um þetta mál ánægja með einföldun regluverks og eftirlits og að rétt væri að einfalda regluverkið enn frekar. Ég tek undir að regluverk í sambandi við þessi mál verði einfölduð enn frekar og gerð skilvirk. Mig langar að minnast á það sem kom fram í umsögnum, að fjárhagsleg áhrif hagsmunaaðila hafi ekki verið metin mikið. Jafnframt komu fram þau sjónarmið að með breytingu á ákvæðum varðandi gjaldtöku sé Matvælastofnun veitt víðtæk heimild til að fella ýmsan kostnað undir kostnað við eftirlit og velta honum yfir á eftirlitsþega. Þar með sé tilefni til aðhalds í rekstri stofnunarinnar minnkað og tökum við undir að það mat á kostnaði sé ófullnægjandi og að undirbúningi gjaldtöku sé ábótavant. Við bendum á nauðsyn þess að meta enn betur þau áhrif sem frumvarpið hefur. Þetta er það sem við höfum verið að velta á milli okkar í mínum flokki.

Svo vil ég líka minnast á það sem við höfum verið að tala um í sambandi við heimaslátrunina. Nefndin er alveg þverpólitískt sammála um að það þurfi að skoða miklu betur og að skoða þurfi regluverk um örsláturhús og heimaslátrun með tilliti til þess að unnt sé að auka svigrúm að einhverju leyti og leggur jafnframt áherslu á að ekki verði slegið af kröfum um gæði vörunnar eða hreinlæti í starfseminni, enda er það ekki það sem við höfum verið að fjalla um í sambandi við það að styðja við heimaslátrun heldur það að einfalda regluverkið og gera það þannig úr garði að litlum og meðalstórum búum sem eru í kjötframleiðslu og eru með kjötvinnslu heima hjá sér verði gert unnt að slátra heima hjá sér, hvort sem það er algjörlega sjálfstætt eða í félagi við fleiri bú. Er það að mínu áliti ein af aðferðunum til að byggja þannig utan um landbúnaðinn, og að þessu leyti kjötframleiðslu, að bændur geti verið sjálfstæðari og fylgt afurðum sínum úr hlaði frá upphafi og þangað til kjötið er komið á disk neytendanna.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Það er margt ágætt í þessu frumvarpi og það hefur tekið breytingum til betri vegar. Svo kemur í ljós í atkvæðagreiðslu í dag hvernig atkvæðin falla.