150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Hér við 3. umr. í þessu ágæta máli er flutt breytingartillaga af meiri hluta hv. velferðarnefndar við frumvarpið. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um voru kallaðar til baka breytingartillögur sem höfðu verið lagðar fram við 2. umr. þar sem sú lúkning þótti ekki ná utan um þá hugmynd að endurskoðunarnefndin sem nú starfar fengi eins frjálsar hendur og kostur væri. Því var ákveðið að hverfa að þessari breytingu, þ.e. að í grunngreinum frumvarpsins, 1.–3. gr., sé mælt til um lengingu fæðingarorlofsins í tíu mánuði en bráðabirgðaákvæðið verði sett þannig upp að þar verði kveðið á um tólf mánuði, fæðingarorlof og fæðingarstyrk, en að ráðherra sé falið að segja til um með lagafrumvarpi næsta haust með hvaða hætti endanleg skipting tólf mánaðanna verði.

Það var farið yfir það af þó nokkurri nákvæmni með m.a. lögfræðingum nefndasviðs hvort hægt væri að hafa bráðabirgðaákvæðið með öðrum hætti en kemur fram hérna, til að mynda eins og breytingartillaga hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar leggur til, að fella út seinasta málsliðinn í bráðabirgðaákvæðinu eins og það er lagt til í þessari breytingartillögu. Því miður reyndist það ekki hægt, m.a. vegna þess að þá hefði mátt túlka bráðabirgðaákvæðið þannig að ekki væri sagt til um neina skiptingu á fæðingarorlofi og einhverjir hefðu þá getað farið fram með þær væntingar að það væri algjört frelsi með það hvernig foreldrar skiptu tólf mánuðunum sín á milli. Það er ekki vilji löggjafans að svo sé því að eins og hv. þingmönnum er kunnugt um hefur verið lögð mikil áhersla á það, og það er kannski einn af hornsteinum íslenska fæðingarorlofskerfisins, að reyna að tryggja það að báðir foreldrar taki hluta af fæðingarorlofinu.

Vegna þeirrar vinnu hins vegar sem er í gangi hjá endurskoðunarnefndinni um heildarendurskoðun á lögunum er valin þessi leið að setja í bráðabirgðaákvæði tólf mánuðina og skiptingin er lögð í hendur ráðherra sem mun leggja fram frumvarp næsta haust. Af augljósum ástæðum hins vegar er það þannig að verði ekkert frumvarp lagt fram þá verður skiptingin fjórir mánuðir á hvort foreldri og fjórir mánuðir óskiptir. En eins og ég sagði áðan er þessi leið farin til að gefa endurskoðunarnefndinni það svigrúm sem hún þarf. Ég hef rætt við hæstv. ráðherra, sem gengur hér í salinn rétt í þessu, um það að ráðherra hafi áform um að hraða eins og kostur er vinnu endurskoðunarnefndarinnar. Það er vel. En skyldan á ráðherra að leggja fram frumvarp næsta haust er ótvíræð samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði. Það er ljómandi gott að ráðherra er hér í salnum til þess að heyra þessi orð.