150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa breytingartillögu, ég verð að viðurkenna að ég er orðin smáringluð af því að það er búið að fara fram og til baka með málið og það hefur tekið mörgum breytingum á stuttum tíma. Hér segir hv. þingmaður að skylda ráðherra til að koma með frumvarp sé ótvíræð samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði. En mig langar kannski til að spyrja hv. þingmann út í það sem hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Leggi ráðherra ekki fram slíkt frumvarp skulu foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar eiga rétt á tólf mánaða fæðingarorlofi samanlagt þannig að sameiginlegur réttur foreldra lengist um tvo mánuði.“

Ég velti því fyrir mér hvort það sé kannski verið að gefa hæstv. ráðherra of mikið svigrúm til þess að koma ekki með neitt frumvarp, hvort skyldan sé nægilega sterk. (Forseti hringir.) Ráðherra gæti komist upp með að sofa á verðinum og það kemur ekkert frumvarp fram og þá gengur þetta sjálfkrafa svona eftir.