150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.

32. mál
[13:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir samvinnuna við að finna góðan farveg fyrir þessa tillögu. Ég leit svo á að að tillagan sjálf sem undir liggur væri lögð fram af góðum hug og ásetningi til að bæta stöðu þessara mála og að í henni væri margt mjög gott og bitastætt, að tengja umhverfisráðuneytið og lög um náttúruvernd betur við þessi mál. Þess vegna taldi ég mikilvægt að við næðum þeim áföngum.

Ég taldi tillöguna sjálfa hins vegar þannig úr garði gerða að ekki væri hægt að samþykkja hana og í raun taldi ég að hún ynni gegn markmiðum sínum með þeim mikla asa sem þar var lagður til. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt, og vil aftur þakka fyrir samstarfið varðandi það, að tekist hafi að finna þennan góða farveg fyrir tillöguna. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd getum svo fylgst með framvindu málsins og höfum náð fram þessari mikilvægu tengingu við umhverfisráðuneytið með því að vísa tillögunni til hæstv. ríkisstjórnar.