150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[13:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir framsögu hans fyrir þessu nefndaráliti. Þetta mál hefur fengið allnokkra umfjöllun á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar og eins og hann gerði ágætlega grein fyrir varð niðurstaðan sú að menn náðu saman um þann tillögutexta sem hér birtist og felur í sér mikilvæga ákvörðun um að farið verði í ákveðna endurskoðun á þessu sviði.

Þegar málið kom fyrst inn var í mínum huga og hugsanlega annarra nefndarmanna ekki spurning um það, eins og hv. þingmaður hefur svo sem nefnt líka, að menn vildu tryggja að fyrir hendi væri öflugt og sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu. Það er ekki deilt um mikilvægi þess að slíkt aðhald sé fyrir hendi og að úrræði séu fyrir hendi til að komast til botns í málum sem upp geta komið þegar lögregla beitir heimildum sínum sem eðli málsins samkvæmt eru viðkvæmar eins og hv. þingmaður rakti í máli sínu. Það var sem sagt enginn ágreiningur um megintilgang þingmálsins en hugsanlega festist ég og fleiri frekar í að velta fyrir okkur stofnanalegum búningi málsins sem fólst í upphaflegri tillögu hv. þingmanns um að hér væri um að ræða sjálfstæða stofnun, nýja stofnun sem heyrði undir Alþingi og þess háttar. Við fórum að velta fyrir okkur alls konar málum í því sambandi.

Það má segja að með þeirri útkomu sem kom úr starfi nefndarinnar höfum við ýtt því á undan okkur að taka endanlega afstöðu til formsins að þessu leyti en dómsmálaráðherra er falið að koma fram með tillögur sem þingið getur tekið afstöðu til í þeim efnum. Ég er þeirrar skoðunar að vel sé hægt að hugsa sér sjálfstæða einingu, ef við sleppum því að nota orðin stofnun og nefnd, í stjórnkerfinu sem hafi með höndum þetta hlutverk. Fjöldi dæma er um bæði sjálfstæðar úrskurðarnefndir og sjálfstæðar stofnanir þó að þær tilheyri framkvæmdarvaldsarmi ríkisvaldsins en séu ekki undirstofnanir Alþingis. Ég myndi fyrsta kastið halda að það væri nærtækara að fara einhverja slíka leið.

Að því slepptu varð niðurstaða nefndarinnar sú að hafa þetta tiltölulega opið en leggja jafnframt til að í tillögugerð dómsmálaráðherra verði útfærsla að þessu leyti og að jafnframt verði fjallað um með hvaða hætti sé hægt að útvíkka starfssvið eftirlitsaðilans sem í dag er þessi sérstaka eftirlitsnefnd og að eins verði tekin afstaða til þess hvernig hægt sé að auka valdheimildir þeirrar nefndar. Það er allt í ágætu samræmi við þær umræður sem áttu sér stað innan nefndarinnar og í samtölum við gesti. Ég held að þegar við áttuðum okkur á því hver voru sameiginleg markmið okkar í málinu höfum við náð að setja til hliðar útfærsluatriði sem undir einhverjum kringumstæðum hefðu getað valdið ágreiningi um málið.

Ég held að þegar við gengum frá þessu nefndaráliti hafi allir nefndarmenn verið nokkuð sáttir við útkomuna. Niðurstaðan verður sú að það er í raun verið að mæla fyrir um það að frá dómsmálaráðherra komi tillögur um nánari útfærslu. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi er það líka í samræmi við yfirlýsingar hæstv. dómsmálaráðherra á undanförnum vikum um þessi atriði þannig að þessi árétting af hálfu Alþingis er mikilvæg og hún á að geta verið þannig að um hana sé góð og breið samstaða.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Eins og oft er þjóna þingmannamál þeim tilgangi að hreyfa við málum og jafnvel þó að þau nái ekki öll jafn langt og þetta geta þau orðið til þess að vekja athygli á mikilvægum og góðum málum. Full ástæða er til að þakka flutningsmanni og öðrum nefndarmönnum fyrir þeirra vinnu í þessu sambandi.