150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[14:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að við séum að samþykkja þetta mál hér í dag um aukinn aðgang almennings að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis. Um leið og ég fagna þessum áfanga í gegnsæi vil ég árétta að það er mikilvægt þegar forsætisnefnd setur sér reglur um aðgengi að upplýsingum að hún takmarki ekki þann rétt sem þessum lögum er ætlað að veita almenningi, og fjölmiðlum sérstaklega, og jafnframt að það sé mjög skýrt hvernig málsmeðferðin sjálf innan nefndarinnar, innan stjórnsýslu Alþingis, verður þegar um upplýsingabeiðnir er að ræða til að almenningur geti gert sér grein fyrir því hvenær hann megi eiga von á svörum, hvort hann eigi rétt á rökstuðningi og öðru slíku. Það er mjög mikilvægt að það komi fram.

Að lokum hvet ég einnig forsætisnefnd Alþingis og hæstv. forseta til að hafa aukið frumkvæði að því að birta upplýsingar. Þannig sköpum við traust á störfum Alþingis.