150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í kjölfar óveðursins síðastliðna daga hafa alvarlegar afleiðingar þess verið að koma fram líkt og við heyrðum í skýrslu hæstv. forsætisráðherra. Enn og aftur kemur þó í ljós hvað við Íslendingar búum vel að öflugum viðbragðsaðilum, bæði sjálfboðaliðum í björgunar- og hjálparsveitum en einnig starfsfólki lögreglu, landhelgisgæslu, sérsveitar, sveitarfélaga, Rauða krossins, Vegagerðarinnar og svo mætti áfram telja. Það var upplýsandi að fá tækifæri til að heimsækja svæðið til að hlusta, skilja og sjá hve gríðarleg áhrif svona óveður hefur haft á heilu samfélögin. Það var aðdáunarvert að fylgjast með fólkinu sem þarna starfar og var reiðubúið að bregðast við og bjarga því sem hægt var og aðstoða samborgara. Varðskipið Þór hefur m.a. bjargað stórum hluta Dalvíkinga um rafmagn svo um munaði og ánægjulegt að þessi kostur skipsins, sem lagt var upp með frá upphafi að gæti gagnast vegna rafmagnsleysis, hafi getað nýst samfélaginu þar. Þá jókst álagið gríðarlega á ákveðnu svæði vegna þess hörmulega slyss í Núpá í Sölvadal sem sló okkur öll óhug. Ég vil þakka þeim sem tóku þátt í þeirri leit við hættulegar og krefjandi aðstæður sem og öllum öðrum viðbragðsaðilum.

Virðulegi forseti. Á mínu borði eru almannavarnir og nú er verið að leggja lokahönd á stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára og ég bind vonir við að þeirri vinnu verði lokið á fyrri hluta næsta árs. Það sem mig langar þó að fara sérstaklega yfir hér er sú mikilvæga eftirfylgni sem verður að vera virk eftir að almannavarnaástand hefur skapast. Nauðsynlegt er því að koma rannsóknarnefnd almannavarna til framkvæmda sem kosin var á Alþingi 27. nóvember sl. Nefndin er sjálfstæð nefnd sem starfar í umboði Alþingis samkvæmt lögum. Henni er ætlað að rýna og meta framkvæmd almannavarnaaðgerða þannig að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla með þeim hætti að mikilvægum umbótum. Með þessu fyrirkomulagi er ætlunin að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsaki eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem starfa á ábyrgðarsviði þess. Ekki hefur verið sett reglugerð um útfærslu á verkefnum nefndarinnar og störfum sem hefur orsakað það að hún hefur aldrei tekið til starfa að fullu.

Ég hef gert ráðstafanir til að virkja nefndina og tryggja henni fjármuni til rannsóknar og skýrslugerðar í kjölfar óveðursins í síðustu viku sem og sett í algjöran forgang að ljúka við gerð reglugerðarinnar í þessari viku. Nefndin mun funda í þessari viku einnig en henni er ætlað að rannsaka þær áætlanir sem stuðst var við þegar hættuástand skapaðist og hvernig viðbragðsaðilar brugðust við, þar á meðal vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, samhæfingar- og stjórnstöðvar, lögregla, aðgerðastjórn lögreglustjóra, slökkvilið, Landhelgisgæslan og almannavarnanefndir. Nefndin á að vera öryggisventill til að rannsaka viðbrögð, takast á við það sem úrskeiðis kann að fara, vera skýrslugjafi til ráðherra, þingsins og ríkislögreglustjóra og síðast en ekki síst tillögusmiður til úrbóta. Þetta er mikilvægt og það er mikilvægt að vel takist til í störfum nefndarinnar við mat á því hvernig til tókst í almannavörnum okkar í síðustu viku og þá ekki síður að fá greiningu á þeim aðgerðum sem grípa verður til í því skyni hvað megi betur fara í þessum málaflokki og ég mun setja það í algjöran forgang.