150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Það er orðinn ágætisskjalabunki sem fylgir málinu og jafnvel örlítið ringlandi en mér finnst mesta fegurðin í upphaflega skjalinu, frumvarpinu sem kom frá ráðherra, sem hefði fest í lög 12 mánaða fæðingarorlof og þá skiptingu sem yrði á milli foreldra. En fyrst ekki náðist að keyra vélina af því afli til að klára málið með þeim hætti á þinginu tel ég ágæta lendingu eins og er kjarninn í því sem meiri hluti velferðarnefndar leggur til, að kveðið sé á um lengingu úr níu upp í tíu mánuði á næsta ári og það með þeim hætti að fjórir mánuðir heyri til hvoru foreldri fyrir sig en sameiginlegi tíminn sé minnkaður vegna þess að því minni sem hann er, því betur bítur fæðingarorlofskerfið sem jafnréttistækið sem það á að vera jafnframt því að snúast um réttindi á vinnumarkaði.

Nú er komin fram breytingartillaga meiri hluta velferðarnefndar við eigin breytingartillögu og við hana geri ég aðeins eina örlitla athugasemd sem formsins vegna þurfti að leggja fram sem breytingartillögu. Sú athugasemd snýst um að í samræmi við það sem þingmenn hafa talað um í dag eigum við ekki að festa niður í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins hvað það er nákvæmlega sem ráðherra á að gera, hvernig hann á að skipta mánuðunum meðan heildarendurskoðun stendur yfir.

Meiri hlutinn leggur til að lágmarki fjóra mánuði til hvors foreldris og að hafa að lágmarki tvo sameiginlega, en hvað ef eitthvað annað kemur út úr nefndarstarfinu, hvað ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar séu hin réttu? Í umsögnum þeirra kemur fram að sameiginlegi tíminn eigi að hverfa og að 12 mánuðum eigi að skipta jafnt á milli foreldra, sex og sex. Þá tel ég þingið búið að binda hendur ráðherrans of snemma þannig að sú breytingartillaga sem ég legg fram á þessu stigi snýst aðeins um þetta.

Þrátt fyrir það bakslag sem varð í því að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði, að nú sé það bara gert í tíu mánuði og svo næsta skref stigið á næsta ári með nýju frumvarpi, ber auðvitað að fagna því að fæðingarorlofið sé að lengjast og að við séum að stíga þetta langþráða skref á braut sem við hefðum átt að vera löngu komin lengra á.